D - vítamínbættar mjólkurvörur - áfram mælt með lýsi
Embætti landlæknis og Rannsóknastofa í næringarfræði við Landspítala háskólasjúkrahús og Háskóla Íslands (RÍN) hafa hvatt mjókuriðnaðinn til að bæta 10 míkrógrömmum (µg) af D-vítamíni í hvern lítra af mjólk og mjólkurvörum til að auðvelda fleirum að fá nægilegt D-vítamín.
Mjólkuriðnaðurinn hefur brugðist vel við þessu og er nú komin ný vara á markað, D-vítamínbætt léttmjólk. Af því tilefni vill Embættið og RÍN árétta að áfram er fólki ráðlagt að taka þorskalýsi (5 ml) eða annan D-vítamíngjafa daglega þótt það drekki D-vítamínbætta léttmjólk.
Ráðlagt er að neyta tveggja skammta af mjólk og mjólkurvörum daglega. Ef sú neysla er á formi D-vítamínbættrar léttmjólkur gefa tvö glös (400 ml) um 4 míkrógrömm (µg) af D-vítamíni, eða tæplega helming af ráðlögðum dagskammti.
Ekki er ætlast til að landsmenn fullnægi D-vítamínþörfinni með mjólk einni saman þar sem mikil mjólkurneysla er líkleg til að minnka fjölbreytni mataræðis. Því er áfram ráðlagt að taka þorskalýsi eða annan D-vítamíngjafa með.
Elva Gísladóttir
Hólmfríður Þorgeirsdóttir
næringarfræðingar
hjá Landlæknisembættinu
Ítarefni:
Mjólkuriðnaðurinn hvattur til að bæta D-vítamíni í mjólk og mjólkurvörur. Frétt á heimasíðu Embættis landlæknis 30.01.2012.
Ráðleggingar um mataræði og næringarefni fyrir fullorðna og börn frá tveggja ára aldri. Lýðheilsustöð 2006.
Ekki gleyma D‐vítamíninu ‐ þú færð ekki nóg úr matnum. Grein eftir Laufeyju Steingrímsdóttur, prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands.
Þarf að D-vítamínbæta íslensk matvæli? Fyrirlestur Laufeyjar Steingrímsdóttur prófessors í næringarfræði við Háskóla Íslands á matvæladegi MNÍ 2011.
Hvað borða Íslendingar? Könnun á mataræði Íslendinga 2010-2011 - helstu niðurstöður.
Fyrst birt 28.02.2012
Síðast uppfært 07.01.2013