Skimun fyrir brjóstakrabbameini
Öllum konum á aldrinum 40-74 ára er boðið í skimun fyrir brjóstakrabbameini
Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein hjá konum hér á landi og að meðaltali greinast 235 konur árlega og er meðalaldur þeirra 62 ár.
Skimun fyrir brjóstakrabbameini er árangursrík leið til að lækka dánartíðni sjúkdómsins en lýðgrunduð skimun fyrir brjóstakrabbameini hófst á Íslandi árið 1987.
Skimun leiðir ekki til lækkunar á tíðni sjúkdómsins, en með því að greina hann snemma aukast líkur á því að sjúkdómurinn sé staðbundinn og hafi ekki náð að dreifa sér um líkamann. Horfur eftir greiningu hér á landi eru góðar og um 90% kvenna eru á lífi fimm árum eftir greiningu.
Almenn brjóstaskimun er fyrir konur, sem ekki eru með einkenni frá brjóstum. Finni kona fyrir einkennum frá brjóstum t.d. hnút eða fyrirferð í brjósti, inndreginni húð eða geirvörtu, blóðugri eða glærri útferð úr geirvörtu, verkjum eða eymslum í brjóstum, er henni ráðlagt að leita til læknis sem þá sendir tilvísun í frekari skoðun. Ef kona hefur áhyggjur og óskar eftir rannsókn á brjóstum fyrir skilgreindan skimunaraldur þá er það mat læknis hvort ástæða sé til rannsókna.
Ákveðin stökkbreyting á genum getur aukið líkur á að fá brjóstakrabbamein. Algengustu stökkbreytingar eru BRCA1 og BRCA2. Konur með þessar stökkbreytingar eru að meðaltali mun yngri við greiningu en aðrar konur sem greinast með brjóstakrabbamein. Einungis 5-10% af öllu brjóstakrabbameini má rekja til erfða.
Sjá bækling Skimun fyrir brjóstakrabbameini.
Brochure: Screening for breast cancer (PDF).
Polski: Badanie przesiewowe adanie przesiewowe w kierunku raka piersi
Hvernig fer skimun fram
Skimun fyrir brjóstakrabbameini er gerð með röntgenmyndum af báðum brjóstum í tveimur plönum. Geislafræðingar sjá um að framkvæma rannsóknina en röntgenlæknar lesa úr myndunum. Ef breytingar sjást á myndum, er konan kölluð inn í frekari rannsókn.
Skimunin fer fram í Brjóstamiðstöðinni, Eiriksgötu 5, 3 hæð.
Boð um skimun kemur frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana en Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri sjá um framkvæmd brjóstaskimana.
Leiðbeiningar um brjóstaskimun
Skimunarleiðbeiningar landlæknis eru byggðar á Evrópskum leiðbeiningum (European guidelines on breast cancer screening and diagnosis , EURopean Network of REFerence Centres for Breast. Cancer Screening ( EUREF) og dönskum leiðbeiningum (Kliniske retingslinier for mammografiscreening í Danmark/ Dansk Radiologisk Selskab, drs/dk).
- Skimun fyrir brjóstakrabbameini
- Aldurshópurinn 40-69 ára fær boð í skimun á 2 ára fresti
- Aldurshópurinn 70-74 ára fær boð í skimun á 3 ára fresti
- Konur í aukinni áhættu á brjóstakrabbameini
Konur með stökkbreytingu á BRCA1 og BRCA2 genum eru í aukinni áhættu á að fá brjóstakrabbamein. Þessar konur eiga ekki að vera í almennu skimunaráætluninni, heldur fara í frekari skoðun og þéttara eftirlit á vegum lækna Landspítalans. - Þessar konur byrja fyrr í eftirliti og fara í myndrannsókn á 6 mánaða fresti.
- Sterk ættarsaga eða aðrir áhættuþættir, svo sem aukinn þéttleiki brjóstvefs kvenna á aldrinum 40-49 ára.
Rannsóknir, gerðar í þeim tilgangi að skilgreina ávinning skimunar í þessum hópi, eru í framkæmd. Niðurstöður eru væntanlegar á næstu árum hvað þetta varðar.
- Konur sem hafa farið í fyrirbyggjandi brjóstnám á báðum brjóstum
- Fá ekki boð í skimun, þar sem búið er að fjarlægja allan brjóstvef.
- Konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein
- Þessar konur eru undir eftirliti krabbameinslæknis/skurðlæknis í 5 ár eftir meðferð, samkvæmt verklagi Landspítala.
- Eftir þann tíma geta þær farið aftur inn í almenna skimunaráætlun.
- Þær konur sem ekki hafa náð skimunaraldri 5 árum eftir krabbameinsmeðferð, eru áfram í árlegu eftirliti/brjóstamynd, þar til þær hafa náð skimunaraldri.
- Konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein fá boð um skimun til 79 ára aldurs.
- Konur með púða í brjóstum
Konur með púða í brjóstum geta farið í almenna skimun.
Sjá nánar leiðbeiningar
European guidelines on breast cancer screening and diagnosis
Kliniske retningslinier for mammografiscrenning i Danmark
Mammography Screening in Denmark - Clinical guidelines
Síðast uppfært 29.04.2021