Skimun fyrir leghálskrabbameini

 Öllum konum á aldrinum 23-64 ára er boðið í skimun fyrir leghálskrabbameini

Markmið skimunar er að greina frumubreytingar á forstigi og meðhöndla þær ef þörf er á og þar með lækka nýgengi og dánartíðni leghálskrabbameins. Mælt er með reglulegri sýnatöku frá leghálsi hjá einkennalausum konum frá 23 ára aldri.

Veirusýking (human papilloma virus, HPV) er orsök krabbameins í leghálsi í 99% tilvika og smitast veiran við kynmök. Algengt er að konur sýkist af veirunni á aldrinum 20-30 ára. Flestar konur finna ekki fyrir einkennum sýkingar og vinna bug á henni á innan við 2 árum en um 10-15% kvenna fá langvinna sýkingu, sem getur valdið frumubreytingum á leghálsi með tímanum. Eina leiðin til að vita hvort sýking hafi átt sér stað er að skima reglulega með sýnatöku frá leghálsi. Ekki er mælt með skimun hjá konum sem farið hafa í fullkomið legnám (total hysterectomy) þar sem þær eru ekki með legháls.

  1. Aldurshópnum 23-29 ára er boðið í skimun með frumustroki á þriggja ára fresti. 
  2. Aldurshópnum 30-59 ára er boðið í skimun með HPV frumskimun á fimm ára fresti.
  3. Aldurshópnum 60-64 ára er boðið í skimun með HPV frumskimun og ef sýnið er HPV neikvætt á þessu aldursbili eru konur útskrifaðar úr skimun.

Heildarfjöldi skimana er því 10-11 á ævi hverrar konu.

Í byrjun árs 2021 var tekin upp HPV frumskimun hjá aldurshópnum 30-64 ára. Konur í þeim aldurshópi fá boð um að mæta í skimun á 5 ára fresti. HPV frumskimun er næmari mælikvarði á áhættu á leghálskrabbameini heldur er frumuskoðun, sem verið hefur notuð við leghálsskimanir frá upphafi. Næmi HPV frumskimunar er um 95%.

Reglubundin mæting í skimun og öflugt eftirlit með frumubreytingum skiptir mestu máli til að árangur skimunar verði góður. Frá því að skimun hófst á Íslandi árið 1964 hefur dánartíðni vegna sjúkdómsins lækkað um tæp 90%. Mæting í skimun hefur farið minnkandi á Íslandi síðustu 30 ár og er nú lægri en 70% sem er undir viðmiði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um viðunandi árangur. Því er mikilvægt að bæta mætingu í leghálsskimun, helst upp fyrir 80%.

Hvernig fer skimun fram?

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um verklegan þátt skimunar og ljósmæður/hjúkrunarfræðingar sem fengið hafa sérstaka þjálfun sjá um sýnatöku. Tekið er sýni frá leghálsi í almennri kvenskoðun og er það sársaukalaust. Auk þess hefur konan val um það að sýni til leghálsskimunar verði tekið hjá kvensjúkdómalækna á stofu.

Leiðbeiningar um leghálsskimun

Leiðbeiningar landlæknis eru byggðar á dönskum leiðbeiningum sem gefnar eru út af Sundhedsstyrelsen og  National Styregruppe for Livmoderhalskræftscreening. Danir hafa ákveðnar staðbundnar útfærslur á skimun en hérlendis er stuðst við leiðbeiningar höfuðborgarsvæðisins (Region Hovedstaden).

Frá 1.febrúar 2022 greinir Landspítalinn hluta þeirra sýna sem tekin eru í skimun fyrir leghálskrabbameini. Samningur við rannsóknarstofuna í Hvidovre í Danmörku rennur út í lok árs 2022 og þá mun Landspítali taka að öllu leyti við rannsókn sýnanna.

Flæðirit fyrir aldurshópinn 30-59 ára er örlítið frábrugðið því sem gert er í Hvidovre þar sem Landspítalinn greinir undirtegundir HPV veira í HPV16 og 18 en aðrir undirflokkar falla í sameiginlegan flokk sen kallast HPV annað.
Þetta hefur ekki áhrif á gæði skimunarinnar.

Flæðirit fyrir aldurshópana 23-29 ára og 60-64 ára eru óbreytt.
Eftirfarandi eru þau flæðirit sem fylgt er við greiningu leghálssýna á Landspítala og í Danmörku.

Flæðirit fyrir leghálsskimun. Hvidovre (surepath sýni)

Flæðirit fyrir leghálsskimun Landspítali (thinprep sýni)

HPV frumskimun

Mikil þróun hefur átt sér stað með HPV frumskimun á síðustu árum og eru mörg lönd búin að taka upp sjálftökupróf, þ.e. konan tekur sjálf sýnið með sérstökum búnaði sem sendur er í HPV mælingu. Þær konur sem mælast með HPV veiruna í þessum sjálftökuprófum eru síðan kallaðar inn í frekari skoðun en gera má ráð fyrir að um 15% af konum mælist með veiruna. Stefnt er að því að taka upp sjálftökupróf að hluta á næstu árum og verður það kynnt þegar þar að kemur.

HPV bólusetningar hafa verið teknar upp í flestum vestrænum löndum en þær hófust hér á landi árið 2013 og er öllum 12 ára stúlkum boðin HPV bólusetning. Gert er ráð fyrir því að frumubreytingar og leghálskrabbamein tengt HPV veirusýkingu fækki umtalsvert í náinni framtíð en mikilvægt er að bólusettar konur mæti áfram í leghálsskimun samkvæmt núverandi verklagi.

Leghálsspeglanir


Eftirlit eftir keiluskurð/meðferð

Síðast uppfært 13.09.2022