Fara beint í efnið

Öllum konum á aldrinum 23-64 ára er boðið í skimun fyrir leghálskrabbameini

Markmið skimunar er að greina frumubreytingar á forstigi og meðhöndla þær ef þörf er á og þar með lækka nýgengi og dánartíðni leghálskrabbameins. Mælt er með reglulegri sýnatöku frá leghálsi hjá einkennalausum konum frá 23 ára aldri.


Boð í skimun

Boð í skimun kemur frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana. Konum býðst að koma í skimun hjá heilsugæslunni eða hjá sínum kvensjúkdómalækni.

Tímapantanir eru á öllum heilsugæslustöðvum landsins. Hægt er að senda tölvupóst á krabbameinsskimun@heilsugaeslan.is.

  • Aldurshópnum 23-29 ára er boðið í skimun með HPV frumustroki (HPV primary) á þriggja ára fresti.

  • Aldurshópnum 30-59 ára er boðið í skimun með HPV frumstroki (HPV primary) á fimm ára fresti.

  • Aldurshópnum 60-64 ára er boðið í skimun með HPV frumskimun og ef sýnið er HPV neikvætt á þessu aldursbili eru konur útskrifaðar úr skimun. Ef kona sinnir ekki boði eftir 60 ára aldur fær hún boð á fimm ára fresti til 70 ára aldurs.

Heildarfjöldi skimana er því 10-11 á ævi hverrar konu. Þú getur afþakkað boð í skimun.

Ef þú ert í vafa um hvenær þú fórst síðast í skimun getur þú leitað að upplýsingunum sjálf á Heilsuvera.is (mínar síður-sjúkraskrá-skimunarsaga) eða fengið upplýsingar á heilsugæslunni þinni.

Allar niðurstöður úr skimunum eru sendar rafrænt í gegnum Ísland.is - Mínar síður

Almenn skimun fyrir leghálskrabbameini

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sér um verklegan þátt skimunar og ljósmæður/hjúkrunarfræðingar sem fengið hafa sérstaka þjálfun sjá um sýnatöku. Tekið er sýni frá leghálsi í almennri kvenskoðun og er það sársaukalaust.

Auk þess hefur konan val um að fara í leghálsskimun til kvensjúkdómalæknis á stofu.

Einkenni sem kalla á rannsókn

  • Leitaðu ávallt til læknis ef þú ert með einkenni frá kvenlíffærum eins og óreglulegar blæðingar, verki eða breytingu á útferð, óháð því hvenær þú fórst síðast í skimun.

  • Ef frumubreytingar greinast er þér vísað í leghálsspelgun (kolposcopi).

  • Frumubreytingar eru oftast orsakaðar af HPV veirusýkingu (human papilloma veiru).

  • Vægar forstigsbreytingar hverfa oft sjálfkrafa án meðferðar og því er nægjanlegt að hafa eftirlit með þeim eftir 6-12 mánuði. Hins vegar ef það gerist ekki eða ef hágráðu frumubreytingar eru í stroki, er þörf á leghálsspeglun til frekari greiningar.

  • Leghálsspeglun er smásjárskoðun á leghálsi þar sem útbreiðsla frumubreytinga könnuð. Einnig eru tekin vefjasýni (biopsiur) til vefjagreiningar. Vefjasýni eru tekin frá svæðum þar sem grunur er um frumubreytingar.