Sjúkraskrá

Sjá stærri mynd

Reglur um meðferð upplýsinga úr sjúkraskrá eru í lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009.

Meginregla laganna er sú að aðgangur að sjúkraskrám er óheimill, nema sérstök lagaheimild segi annað. Mikilvægasta lagaheimildin tryggir rétt fólks til upplýsinga úr eigin sjúkraskrá. Umsjónaraðili sjúkraskrár hefur mjög rúmar heimildir til að veita sjúklingi upplýsingar úr sjúkraskrá hans sjálfs.

Enginn á rétt til upplýsinga úr sjúkraskrám annarra, en umsjónaraðili sjúkraskrár hefur þó mjög þrönga heimild til að veita nánum aðstandanda aðgang að upplýsingum úr sjúkraskrá látins einstaklings við sérstakar aðstæður. 


Aðgangur sjúklings að eigin sjúkraskrá
 
Í 14. gr. laganna eru reglur um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá. Þar segir m.a. að sjúklingur eða umboðsmaður hans eigi rétt á aðgangi að eigin sjúkraskrá í heild eða að hluta og til að fá afhent afrit af henni ef þess er óskað.

Beiðni um aðgang að sjúkraskrá skal beint til umsjónaraðila sjúkraskrárinnar. Sé talið að það þjóni ekki hagsmunum sjúklings að afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis.

Sé um að ræða sjúkraskrárupplýsingar sem hafðar eru eftir öðrum en sjúklingi sjálfum eða heilbrigðisstarfsmönnum skal leita samþykkis þess sem upplýsingarnar gaf áður en þær eru sýndar honum.

Sjúklingur á rétt á því að fá upplýsingar frá umsjónaraðila sjúkraskrár um það hverjir hafi aflað upplýsinga úr sjúkraskrá hans, m.a. með samtengingu sjúkraskrárkerfa, hvar og hvenær upplýsinga var aflað og í hvaða tilgangi.


Sjúkraskrá látins sjúklings
 
Í 15. gr. laga um sjúkraskrár er þröng heimild fyrir nána aðstandendur til aðgangs að upplýsingum úr sjúkraskrá látins einstaklings þegar ríkar ástæður eru fyrir hendi sem mæla með því að upplýsingar séu veittar.

Beiðni um aðgang að sjúkraskrá látins sjúklings þarf að beina til umsjónaraðila sjúkraskrár þar sem hinn látni hefur fengið heilbrigðisþjónustu.

Þegar metið er  hvort veita skuli aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings skal hafa hliðsjón af hagsmunum aðstandanda sem óskar eftir slíkum aðgangi og vilja hins látna, liggi fyrir upplýsingar um hann.

Ef umsjónaraðili sjúkraskrár neitar að veita aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings eða afhenda afrit af henni skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjunina aðgang undir embætti landlæknis

Sjúkraskrár varða viðkvæm einkamál og heilbrigðisstarfsmönnum er skylt að halda trúnað um þau atriði sem þar koma fram, einnig eftir andlát sjúklings. Eftirlifandi aðstandendum eru því ekki veittar upplýsingar úr sjúkraskrá látins sjúklings nema í undantekningartilvikum.

Réttur til að bera synjun um aðgang að sjúkraskrá undir embætti landlæknis
Í 15. gr.a laga um sjúkraskrár er fjallað um rétt sjúklings til þess að bera synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá, í heild eða að hluta, eða synjun um að fá afhent afrit af henni undir embætti landlæknis.

Sama gildir um synjun umsjónaraðila sjúkraskrár um að veita nánum aðstandanda aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings eða synjun um að fá afhent afrit af henni. Um málsmeðferð fer samkvæmt stjórnsýslulögum.

Ákvarðanir embættisins um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og ekki er hægt að skjóta þeim til ráðherra.

Síðast uppfært 07.06.2021