Líffæragjöf - Við gefum lífVið getum bjargað lífi annarra með því að gefa þeim líffæri. Í öðrum tilvikum getum við lengt ævi fólks og bætt heilsu þess og líðan með líffæragjöf.

Við verðum öll sjálfkrafa líffæragjafar frá og með nýársdegi 2019 í samræmi við ný lög sem taka þá gildi.

Þeir sem kunna að vera andvígir því að gefa líffæri skrái það á Heilsuveru  undir Mínar síður eða á síðu Embættis landlæknis.  Þeir sem ekki nota tölvur og stunda tölvusamskipti geta leitað aðstoðar heimilislækna sinna við að skrá afstöðu sína frá 1. janúar 2019.

Staðreyndir um líffæragjöf og líffæraígræðslur

  • Hvað er líffæragjöf?
   Við tölum um að líffæri séu „gefin“ þegar hjarta, lungu, lifur, nýru, bris eða þarmar eru fjarlægð úr látnu fólki og grædd í sjúklinga sem búa við að líffæri þeirra séu alvarlega biluð og starfi takmarkað eða alls ekki.

   Algengt er að ígrædd nýru komi frá lifandi gjöfum, oftast nánum ættingjum sjúklinga.

   Í stöku tilvikum er líka hluti lifrar í lifandi gjafa notaður til ígræðslu.

   Enn má nefna að bæta má sjón sjónskertra með því að græða í þá hornhimnu látins fólks.
  • Hvernig ber andlát að þegar líffæragjöf kemur til álita?
   Andlát vegna heiladauða er yfirleitt forsenda þess að unnt sé að nýta líffæri til ígræðslu. Þá er hægt að fjarlægja líffærin áður en blóðrás stöðvast og þau skemmast.

   Heiladauði stafar í flestum tilvikum af blæðingu eða æðastíflu í heila. Þá geta alvarlegir höfuðáverkar valdið viðvarandi og ólæknandi skemmdum á heilavef.
  • Er unnt að staðfesta heiladauða með vissu?
   Já. Þegar blóðflæði til heilans stöðvast með öllu myndast útbreiddar skemmdir. Slíkt ástand kallast heiladauði. Heilinn hættir að starfa og telst þá viðkomandi látinn lögum samkvæmt.

   Oftast deyja menn þannig að þeir hætta að anda og hjartsláttur stöðvast og þar með allt blóðflæði líkamans.

   Í fáeinum tilvikum getur það gerst að algert heiladrep verði hjá sjúklingum í öndunarvél án þess að hjartað hætti strax að slá. Þá er hægt að halda blóðrás og öndun gangandi um sinn. Dauðinn er þá staðfestur með nákvæmu mati á starfsemi miðtaugakerfis og öðrum rannsóknum samkvæmt ákveðnum verkferlum.

   Stundum eru teknar myndir af æðum í heila til að staðfesta að blóðflæði hafi stöðvast.
  • Hvenær er meðferð hætt?
   Þegar algert heiladrep hefur verið staðfest er sjúklingur úrskurðaður látinn og þá er allri meðferð hætt.

   Ef nema á brott líffæri til ígræðslu er meðferð hins vegar haldið áfram þar til þau hafa verið fjarlægð.
  • Þurfa margir á líffæri að halda frá öðrum?
   Já. Árlega þarfnast 25-30 sjúklingar líffæraígræðslu á Íslandi og þeim hefur fjölgað á undanförnum árum. Meginástæðan er aukin tíðni langvinnra sjúkdóma sem leiða til líffærabilunar.

   Fólk á öllum skeiðum ævinnar getur veikst svo alvarlega í hjarta, lifur, lungum eða nýrum að kalli á líffæraígræðslu ef nokkur kostur er er á slíku.

   Við nýrnabilun á lokastigi er völ á öðru meðferðarúrræði; blóð- eða kviðskilun. Nýrnaígræðsla er samt ákjósanlegri leið í mörgum tilvikum.

   Sjúklingar og heilbrigðiskerfið á Íslandi þarf að fá fleiri líffæri til ígræðslu og því er mikilvæg sú lagabreyting að gera að meginreglu að allir landsmenn séu sjálfkrafa líffæragjafar líkt og margar aðrar þjóðir hafa gert.

   Hver líffæragjafi getur bjargað lífi nokkurra þurfandi sjúklinga. Líffæragjöf kemur samt ekki til álita nema í tiltölulega fáum tilvikum dauðsfalla.
  • Álitamál og hvað ef ...?
   Þeir sem íhuga að hafna því að verða mögulegir líffæragjafar gera það yfirleitt af tilfinningalegum, trúarlegum eða siðferðilegum ástæðum. Eðlilegt er þá að menn velti jafnframt fyrir sér stöðu náinna aðstandenda sinna sem kynnu mögulega að þarfnast líffæraígræðslu til að bjarga lífi sínu eða heilsu vegna alvarlegrar líffærabilunar.
  • Hver er árangur af líffæraígræðslum?
   Yfirleitt góður. Ígræðsla líffæris bjargar ekki einungis lífi heldur eykur líka lífsgæði. Margir lifa eðlilegu lífi með ígrætt líffæri, stunda vinnu og líkamsrækt. Nokkur dæmi eru um að konur með ígrætt líffæri eignist börn.
  • Hvar fara líffæraígræðslur fram?
   Líffæri úr látnum líffæragjöfum á Íslandi eru flutt til Svíþjóðar og grædd í sjúklinga á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg. Þau tilheyra líffærabanka norrænu ígræðslusamtakanna Scandiatransplant sem Ísland á aðild að.

   Lifandi líffæragjafar geta sótt um tímabundna fjárhagsaðstoð Tryggingastofnunar ríkisins á meðan þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.
  • Ástvinir og aðstandendur séu upplýstir
   Líffæragjöf er heilbrigðis- og samfélagsmál sem mælt er með að fólk ræði við sína nánustu svo afstaða þess til málsins sé ljós, hver svo sem hún er. Upplýst umræða auðveldar ástvinum og nánum aðstandendum að taka erfiðar ákvarðanir, standi þeir frammi fyrir því síðar.

 

Síðast uppfært 23.11.2018