Kvörtun vegna heilbrigðisþjónustu

Sjúklingatrygging

Embætti landlæknis tekur ekki við bótakröfum eða kveður á um bótaskyldu. Það er m.a. hlutverk Sjúkratrygginga Íslands. Hlutverk landlæknis er að rannsaka málsatvik sem kvörtun varðar og veita rökstutt, faglegt álit á því hvort um hafi verið að ræða mistök, vanrækslu og/eða ótilhlýðilega framkomu við veitingu heilbrigðisþjónustu.

Sjá um sjúklingatryggingu á heimasíðu Sjúkratrygginga Íslands.

Notendum heilbrigðisþjónustu er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættis landlæknis ef þeir telja að vanræksla eða mistök hafi átt sér stað þegar þjónustan var veitt.

Þá er notendum heilbrigðisþjónustu einnig heimilt að bera fram formlega kvörtun við embætti landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

Sjá nánar upplýsingar um kvörtun einstaklinga eða aðstandanda til embættis landlæknis.

Kvörtun þarf að vera skrifleg og tilefni hennar skal koma þar skýrt fram.
Hér er hægt að nálgast tvenns konar eyðublöð fyrir kvartanir:

Í reit efst til hægri á þessari síðu er einnig hægt að nálgast þessi eyðublöð.

Kvörtun þarf að berast embætti landlæknis undirrituð af sjúklingi eða þeim sem fengið hefur umboð hans til þess og á þá skriflegt umboð að fylgja með kvörtuninni.

Spurningar og svör um kvartanir

  • Hvernig á að bera fram kvörtun til embættis landlæknis?
   Kvörtun skal beina skriflega, með formlegu bréfi (ekki í tölvupósti), til embættis landlæknis, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík.

   Málavöxtum skal lýst nákvæmlega og kvörtunarefnið skilgreint. Í bréfinu þarf að koma fram kennitala og heimilisfang þess sem telur á sér brotið. Álitsgjöf embættisins er sjúklingi að kostnaðarlausu og ekki er nauðsynlegt að leita aðstoðar þriðja aðila, eins og t.d. lögfræðings, nema þegar sjúklingur er ekki fær um að annast málið sjálfur. Þá getur hann veitt aðstandanda, lögfræðingi eða öðrum umboðsmanni sínum skriflegt umboð til að fara með málið. Þegar um börn er að ræða geta forráðamenn sent inn kvörtun og einnig er tekið við kvörtunum frá börnum sem eru 16 ára og eldri. Ef sjúklingur af einhverjum ástæðum treystir sér ekki til þess að skrifa embættinu er hægt að leita upplýsinga og aðstoðar í síma 510 1900.
  • Hvernig er unnið úr kvörtunarmálum?
   Eftir að kvörtun hefur borist er kvörtunarþola (heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstarfsmanni) sent bréf með upplýsingum um að kvörtun hafi borist ásamt afriti af kvörtunarbréfinu. Óskað er eftir sjónarmiðum hans í málinu. Einnig er óskað eftir nauðsynlegum upplýsingum úr sjúkraskrá þess sem kvartaði. Oft þarf að leita umsagnar frá óháðum sérfræðingi. Málsgögn eru kynnt aðilum og að lokinni málsmeðferð gefur embætti landlæknis út skriflegt álit sem sent er málsaðilum. Ástæða er til að taka fram að meðferð kvörtunarmála getur tekið langan tíma séu málin flókin eða erfitt reynist að afla umsagna..
  • Hversu langur frestur er til að senda inn kvörtun?
   Kvörtun skal borin fram við embætti landlæknis án ástæðulauss dráttar og í síðasta lagi innan tíu ára frá því að atvikið átti sér stað.

 

Fylgigögn vegna kvörtunarmála

Fylgigögn/skjöl þurfa að vera frumgögn á PDF formi, ljósrituð eða innskönnun í lit og í hárri upplausn svo þau sýni skýrt allar upplýsingar sem koma fram á frumgagninu. Sjá nánari útlistun á gagnaskilum:

 • Skönnun/ljósritun þarf að vera hornrétt þar sem ljóslestri er beitt við meðferð gagna hjá embættinu. Jafnframt þarf skönnun/ljósritun að ná yfir allt sjáanlegt efni á síðum, einnig ef eitthvað er skrifað á jaðar síðunnar.
 • Allar síður þurfa að fylgja hverju skjali, jafnvel þótt aðeins sé vísað/vitnað í hluta þeirra.
 • Blaðsíður þurfa að vera merktar með raðnúmeri. Ef frumgögn eru ekki með síðunúmerum, þarf að merkja þau með raðnúmeri og sjá til þess að þau séu í réttri röð.
 • Sjúkraskrárafrit þurfa að innihalda eyðublöð, nótur, rannsóknaniðurstöður og færslur, þar með talið handskrifuð blöð, vottorð, myndir osfrv. T.d. þurfa öll sjúkraskrárgögn sem tilheyra legu/meðferð/skurðaðgerð að fylgja, sem tilheyra tilfellinu, þar með talið hjúkrunarskráningar, samþykkiseyðublað, skráning íhluta, skráning „time-out“, atvikaskráning og svo framvegis. Þess skal getið ef einhverju er sleppt og þá hvers vegna.
 • Ef ekki er hægt að uppfylla ofangreint eða gögnum er sleppt, skal þess getið með skýringum.
 • Óskýrum/ólæsilegum/ófullkomnum afritum gagna verður hafnað nema sendandi rökstyðji að betri afrit sé ekki hægt að útvega.

 

Niðurstaða kvörtunarmála

Málsgögn eru kynnt aðilum og að lokinni málsmeðferð gefur embætti landlæknis út skriflegt álit sem sent er málsaðilum.

Meðferð kvörtunarmála getur tekið langan tíma séu málin flókin eða erfitt reynist að afla umsagna.

 

Endurupptaka og kærur

Heimilt er að kæra málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli til heilbrigðisráðherra. Niðurstaða landlæknis verður ekki kærð. Kærufrestur er þrír mánuðir.

Síðast uppfært 10.02.2022