Kvartanir til embættis landlæknis

Sjá stærri mynd

Embætti landlæknis er skv. lögum um landlækni og lýðheilsu skylt að sinna kvörtunum er varða samskipti almennings við þá sem veita heilbrigðisþjónustu.

Notendum heilbrigðisþjónustu er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættis landlæknis ef hann/hún telur að vanræksla eða mistök hafi átt sér stað þegar þjónustan var veitt.

Þá er notendum heilbrigðisþjónustu einnig heimilt að bera fram formlega kvörtun við embætti landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg.

Sjá nánar upplýsingar um kvörtun einstaklinga eða aðstandanda til embættis landlæknis.

Kvörtun á að vera skrifleg og tilefni hennar skal koma þar skýrt fram.
Hér er hægt að nálgast tvenns konar eyðublöð fyrir kvartanir:

Í reit efst til hægri á þessari síðu er einnig hægt að nálgast þessi eyðublöð.

Kvörtun þarf að berast embætti landlæknis undirrituð af sjúklingi eða þeim sem fengið hefur umboð hans til þess og á þá skriflegt umboð að fylgja með kvörtuninni.

Spurningar og svör um kvartanir

  • Hvernig á að bera fram kvörtun til embættis landlæknis?
   Kvörtun skal beina skriflega, með formlegu bréfi (ekki í tölvupósti), til embættis landlæknis, Katrínartúni 2, 105 Reykjavík.

   Málavöxtum skal lýst nákvæmlega og kvörtunarefnið skilgreint. Í bréfinu þarf að koma fram kennitala og heimilisfang þess sem telur á sér brotið. Álitsgjöf embættisins er sjúklingi að kostnaðarlausu og ekki er nauðsynlegt að leita aðstoðar þriðja aðila, eins og t.d. lögfræðings, nema þegar sjúklingur er ekki fær um að annast málið sjálfur. Þá getur hann veitt aðstandanda, lögfræðingi eða öðrum umboðsmanni sínum skriflegt umboð til að fara með málið. Þegar um börn er að ræða geta forráðamenn sent inn kvörtun og einnig er tekið við kvörtunum frá börnum sem eru 16 ára og eldri. Ef sjúklingur af einhverjum ástæðum treystir sér ekki til þess að skrifa embættinu er hægt að leita upplýsinga og aðstoðar í síma 510 1900.
  • Hvernig er unnið úr kvörtunarmálum?
   Eftir að kvörtun hefur borist er kvörtunarþola (heilbrigðisstofnun eða heilbrigðisstarfsmanni) sent bréf með upplýsingum um að kvörtun hafi borist ásamt afriti af kvörtunarbréfinu. Óskað er eftir sjónarmiðum hans í málinu. Einnig er óskað eftir nauðsynlegum upplýsingum úr sjúkraskrá þess sem kvartaði. Oft þarf að leita umsagnar frá óháðum sérfræðingi. Málsgögn eru kynnt aðilum og að lokinni málsmeðferð gefur embætti landlæknis út skriflegt álit sem sent er málsaðilum. Ástæða er til að taka fram að meðferð kvörtunarmála getur tekið langan tíma séu málin flókin eða erfitt reynist að afla umsagna..
  • Hversu langur frestur er til að senda inn kvörtun?
   Kvörtun skal borin fram við embætti landlæknis án ástæðulauss dráttar og í síðasta lagi innan tíu ára frá því að atvikið átti sér stað.


Niðurstaða kvörtunarmála


Álit embættis landlæknis er sent málsaðilum. Embætti landlæknis ákveður ekki skaðabótaskyldu heldur gefur einungis faglegt álit á máli.

Heimilt er að kæra málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli til velferðarráðherra. Niðurstaða landlæknis verður ekki kærð. Kærufrestur er þrír mánuðir.

Síðast uppfært 11.11.2020