Notendur heilbrigðisþjónustu

Sjá stærri mynd

Notendur heilbrigðisþjónustu/sjúklingar eru miðdepill hennar – án þeirra væri heilbrigðisþjónusta ekki til og engin þörf fyrir hana.

Með lögum um réttindi sjúklinga eru þeim tryggð tiltekin rétttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi. Þannig styrkja lögin réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna.

Í lögunum segir einnig að sjúklingur/notandi heilbrigðisþjónustu beri ábyrgð á heilsu sinni eftir því sem það er á hans færi og ástand hans leyfir og að honum beri eftir atvikum að vera virkur þátttakandi í meðferð sem hann hefur samþykkt, sbr. lög um réttindi sjúklinga.

Brýnt er að notendur heilbrigðisþjónustu kynni sér lögbundin réttindi sín og leiti leiða til að bera ábyrgð á heilsu sinni eftir því sem kostur er.

Rannsóknir hafa sýnt að þeim sem taka virkan þátt í meðferð sinni farnast betur en öðrum. Notendur heilbrigðisþjónustu geta gert ýmislegt sjálfir til að auka eigið öryggi innan heilbrigðisþjónustunnar.