Rekstur heilbrigðisþjónustu

Sjá stærri mynd

Heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem hyggjast hefja rekstur heilbrigðisþjónustu ber að tilkynna það til landlæknis. Er það í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007, lög um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 og reglugerð  nr. 786/2007.

Í tilkynningunni skulu koma fram:

  • Almennar upplýsingar um heilbrigðisstarfsmann eða heilbrigðisstofnun.
  • Lýsing á aðstöðu, tækjakosti, búnaði og mönnun. 

Embætti landlæknis gefur sér allt að átta vikum frá því tilkynning um rekstur berst þar til hún er tekin fyrir hjá embættinu.

Rekstaraðilar í heilbrigðisþjónustu þurfa enn fremur að uppfylla ákveðnar faglegar lágmarkskröfur til að mega hefja starfsemi á sviði heilbrigðisþjónustu. 

Þeir sem hyggjast veita heilbrigðisþjónustu með fjarheilbrigðistækni er skylt að sækja um það sérstaklega á eyðublaðinu Umsókn um veitingu fjarheilbrigðisþjónustu. Þegar um er að ræða rekstur sem tekur til margra verktaka er nægilegt að ábyrgðarmaður starfsstöðvar/heilbrigðisstofnunar sendi inn umsókn. Meðfylgjandi skal vera excel skjal með nafni, kennitölu og starfsheiti þeirra verktaka sem rekstur fjarheilbrigðisþjónustu tekur til. Frekari upplýsingar um rekstur fjarheilbrigðisþjónustu má finna á síðunni Spurt og svarað um fjarheilbrigðisþjónustu. 

Landlæknir heldur skrá yfir rekstraraðila í heilbrigðisþjónustu og verði breytingar á þjónustu þeirra eða rekstrinum hætt skal það tilkynnt til landlæknis.

Þann 1. janúar 2013 tóku gildi ný lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012. Samkvæmt breytingum á þeim lögum, sem gerðar voru með lögum nr. 43/2014, er þeim heilbrigðisstarfsmönnum sem reka heilbrigðisþjónustu óheimilt að stunda slíkan rekstur eftir 75 ára aldur. 

Landlæknir getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði en sækja þarf um undanþáguna sérstaklega. Í fyrsta sinn sem sótt er um framlengingu er heimilt að veita undanþágu til allt að þriggja ára, en eftir það til eins árs í senn. Nánari upplýsingar um skilyrði sem þarf að uppfyllar má sjá í reglugerð nr. 620/2014 .

Síðast uppfært 18.05.2021