Heilsuvera – mínar heilbrigðisupplýsingar

Sjá stærri mynd

Hvað er Heilsuvera?

Kröfur samfélagsins um aukna nýtingu upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustu og stjórnsýslunnar almennt, verða sífellt meiri, en almennt er viðurkennt að aukin nýting upplýsingatækni innan heilbrigðisþjónustu auki öryggi sjúklinga, skilvirkni og gæði þjónustunnar.

Almenn þróun undanfarin ár hefur verið sú að notendur heilbrigðisþjónustu séu í auknum mæli upplýstir og virkir þáttakendur í eigin meðferð. Lög um sjúkraskrár nr. 55/2009 styðja það, en þau kveða á um rétt einstaklinga til aðgangs að eigin sjúkraskrárupplýsingum. Því er mikilvægt að stuðla að greiðu og öruggu rafrænu aðgengi einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum.

Embætti landlæknis ber ábyrgð á þróun og innleiðingu upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu á landsvísu og hefur nú, í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hugbúnaðarfyrirtækið TM Software, þróað heilbrigðisgáttina Heilsuvera. 

Tilgangurinn með Heilsuveru var að þróa öruggan rafrænan aðgang fyrir einstaklinga að eigin heilbrigðisupplýsingum, hvar og hvenær sem þörf væri á og óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar væru skráðar.

Markmið
Með Heilsuveru er leitast við að auka aðgengi almennings að upplýsingum um sín mál innan heilbrigðisþjónustunnar. Helstu markmiðin með þróun Heilsuveru eru að:

  • Veita almenningi rafrænan og öruggan aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum.
  • Stuðla að auknu öryggi sjúklinga með því að veita aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum, s.s. lyfjaupplýsingum og upplýsingum um ofnæmi.
  • Auka þjónustu við almenning í heilbrigðiskerfinu þannig að einstaklingar geti nálgast eigin heilbrigðisupplýsingar án tafar, hvar og hvenær sem er, óháð því á hvaða heilbrigðisstofnun, heilsugæslustöð eða starfsstofu sérfræðings upplýsingarnar voru skráðar.
  • Gera einstaklinum kleift að eiga í öruggum rafrænum samskiptum við lækna, hjúkrunarfræðinga og aðra heilbrigðisstarfsmenn.
  • Hafa rafrænt eftirlit með áhættuhópum þar sem einstaklingar skrá eigin mælingar og fá fræðslu og ráðgjöf.

Heilsuvera gerir einstaklingum kleift að hafa betri yfirsýn yfir samskipti sín við heilbrigðisþjónustuna, en við það skapast tækifæri til aukinnar þátttöku í eigin meðferð.

Með aðgangi að Heilsuveru geta einstaklingar nú fengið yfirsýn yfir lyfjanotkun sína, sótt rafrænt um endurnýjun lyfseðla, séð stöðu lyfseðla í lyfseðlagátt, séð ofnæmi sem hefur verið skráð í sjúkraskrá, séð framkvæmdar bólusetningar, átt örugg rafræn samskipti við heilbrigðisstarfsmenn og bókað tíma rafrænt á heilsugæslustöð. Auk þess er hægt að fá aðgang að upplýsingum eigin barna að 16. ára aldri, en aldurstakmarki var breytt úr 15. ára í 16. ára aldur í febrúar 2017.

Embætti landlæknis mun halda áfram að þróa Heilsuveru og munu einstaklingar smám saman fá aukinn aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum með hjálp Heilsuveru.

Má t.d. nefna aðgang að upplýsingum um legur á sjúkrahúsi, heimsóknir á heilsugæslustöð, helstu greiningar og meðferðir, rannsóknaniðurstöður, hverjir hafa flett upp í sjúkraskrá einstaklingsins og möguleika á eigin skráningu einstaklinga í sjúkraskrá (t.d. ýmis vítamín og önnur lyf en þau sem eru lyfseðilsskyld).

Aðgangur að Heilsuveru
Til þess að fá aðgang að eigin heilbrigðisupplýsingum í Heilsuveru þarf rafræn skilríki. Rafræn skilríki eru bæði fáanleg á snjallkortum og í farsímum. Nánari upplýsingar er að finna á síðunni Rafræn skilríki.

Til að skrá sig inn í Heilsuveru ferð þú inn á https://www.heilsuvera.is/

Til þess að fá aðgang að rafrænum tímabókunum á heilsugæslustöð og endurnýjun lyfjaseðla þarf að vera skráður á heilsugæslustöðina.

Síðast uppfært 05.10.2016