Aðgangur að lyfjagagnagrunni

Sjá stærri mynd

Læknum sem koma að meðferð sjúklings er heimill aðgangur að lyfjasögu sjúklinga sinna í lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis samkvæmt breytingum á lyfjalögum nr. 93/1994 sem gerðar voru á Alþingi árið 2012. Lögin veita einnig einstaklingum aðgang að eigin lyfjaupplýsingum í gagnagrunninum. Um er að ræða lyfjaupplýsingar yfir þriggja ára tímabil í senn.

Aðgangur lækna

Góð yfirsýn læknis yfir lyfjanotkun sjúklings er mikilvægur þáttur í að auka öryggi og gæði í lyfjameðferð sjúklinga og stuðla að auknu hagræði í heilbrigðisþjónustu.

Ekki er lengur þörf á að læknar sæki sérstaklega um aðgang að lyfjagagnagrunninum til embættisins. Allir læknar hafa aðgang að honum, annaðhvort beint úr sjúkraskrárkerfi (Sögukerfinu) eða með aðgangi af vefsíðunni lyfsedlar.landlaeknir.is og notkun rafrænna skilríkja.

Þar geta læknar:

 • Séð rafrænar, pappírs- og símsendar lyfjaávísanir sjúklinga sinna
 • Séð allar lyfjaafgreiðslur sinna sjúklinga
 • Ógilt lyfseðil
 • Skrifað og sent rafrænan lyfseðil
 • Endurnýjað rafrænan lyfseðil.

Lyfjaupplýsingar uppfærast sem næst rauntíma í lyfjagagnagrunni embættisins. Á grundvelli áhættumats er gerð krafa um hæsta fullvissustig þegar læknar eða einstaklingar auðkenna sig við innskráningu í gagnagrunninn, sem þýðir að gerð er krafa um rafræn skilríki.

Aðgangur einstaklinga

Með aðgangi að eigin lyfjasögu hafa einstaklingar betri yfirsýn yfir lyfjamál sín með tilheyrandi leiðbeiningum um notkun hvers lyfs eftir því sem við á. Allir einstaklingar hafa í dag aðgang að lyfjagagnagrunni landlæknis í gegnum HEILSUVERU. Skilyrði fyrir aðgangi eru rafræn skilríki.

Nánari upplýsingar um HEILSUVERU má finna á vefsíðunni HEILSUVERA – mínar heilbrigðisupplýsingar.

Einnig hafa foreldrar aðgang að lyfjaupplýsingum barna sinna að 16 ára aldri. Í náinni framtíð munu einstaklingar geta skráð sjálfir notkun sína á lyfjum sem ekki eru lyfseðilsskyld og einnig notkun á vítamínum, fæðubótarefnum o.s.frv.


Markmiðið með aðgangi að lyfjagagnagrunni er að auka öryggi og gæði í heilbrigðisþjónustu á Íslandi með því:

 • Að stuðla að öruggari lyfjameðferð einstaklinga.
 • Að allar lyfjaávísanir og afgreiðslur vegna þeirra verði aðgengilegar öllum læknum til uppflettingar óháð því hvaða læknir ávísaði lyfinu og hvar hann var staðsettur innan heilbrigðiskerfisins.
 • Að læknar fái öruggan rafrænan aðgang að vefviðmóti þar sem þeir geta ávísað lyfjum á rafrænan hátt án þess að hafa aðgang að þar til bæru sjúkraskrárkerfi. Markmiðið er að auka hlutfall rafrænna lyfseðla enn frekar til að stuðla að auknu öryggi og sparnaði í heilbrigðisþjónustu.
 • Að auka þjónustu við almenning þannig að einstaklingar geti nálgast lyfjaupplýsingar sínar á öruggan rafrænan máta og án tafar, hvar og hvenær sem er.
 • Að draga úr kostnaði í heilbrigðisþjónustu með betri yfirsýn yfir lyfjaávísanir einstaklinga.
 • Að þróa einstaklingsmiðaða rafræna sjúkraskrá þar sem mikilvægar upplýsingar um lyfjaávísanir og afgreidd lyf fylgja einstaklingi, en eru ekki bundnar við þá stofnun/læknastofu þar sem upplýsingarnar voru skráðar. 
Með aðgangi að lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis er leitast við að nýta upplýsingatækni með markvissum hætti til að auka samnýtingu upplýsinga, gæði, öryggi og skilvirkni í rekstri og þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Er þetta liður í að þróa einstaklingsmiðaða rafræna sjúkraskrá og rafræn samskipti sem tryggja skilvirkt og öruggt aðgengi að viðeigandi rauntímaupplýsingum á landsvísu, hvar og hvenær sem þörf er á.

Ef spurningar eða vandamál koma upp varðandi aðgang að lyfjagagnagrunninum er hægt að hafa samband við Auði Harðardóttur eða Inga Steinar Ingason í síma: 510-1900 eða senda tölvupóst.

 

Síðast uppfært 08.09.2021