Rafræn sjúkraskrá

Sjá stærri mynd

Þann 1. mars 2012 voru málefni sem tengjast rafrænni sjúkraskrá flutt frá velferðarráðuneyti til Embættis landlæknis. Málefnum rafrænnar sjúkraskrár er sinnt af heilbrigðisupplýsingasviði embættisins. Innan sviðsins er starfseining sem fer með yfirstjórn á öllum þáttum sem tengjast rafrænni sjúkraskrá. Það felur meðal annars í sér þróun, framkvæmd og innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár og rafrænna samskipta með heilbrigðisupplýsingar á landsvísu.

Hlutverk

Hlutverk heilbrigðisupplýsingasviðs hvað varðar rafræna sjúkraskrá er m.a.:

  • Að þróa og innleiða upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu á öruggan, hagkvæman og skilvirkan hátt og stuðla þannig að góðri og öruggri þjónustu og bættri lýðheilsu á öllum æviskeiðum.
  • Að viðhalda og sjá um stefnu í upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu á landsvísu, í samráði við heilbrigðisyfirvöld og aðra lykilaðila.
  • Að þróa og innleiða rafræna sjúkraskrá í samræmi við þarfir sjúklinga, heilbrigðisstarfsmanna, stjórnenda og stjórnvalda.

Stýring, samhæfing og framkvæmd verkefna sem tengjast rafrænni sjúkraskrá og rafrænum sendingum heilbrigðisupplýsinga á landsvísu er sameinuð innan heilbrigðisupplýsingasviðs. Verkefni rafrænnar sjúkraskrár fela m.a. í sér að skilgreina, í samvinnu við notendur, faglegar og tæknilegar kröfur til sjúkraskrárkerfa og forgangsröðun mikilvægra verkefna vegna þróunar rafrænnar sjúkraskrár.

Markmið

Áhersla er lögð á markvissa þróun upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu og samnýtingu upplýsinga til að auka gæði, öryggi, hagkvæmni og skilvirkni í rekstri og þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Helstu markmið Embættis landlæknis um rafræna sjúkraskrá eru:

  • Að þróa sjúklingamiðaða rafræna sjúkraskrá og rafræn samskipti sem tryggja skilvirkt og öruggt aðgengi að viðeigandi rauntímaupplýsingum á landsvísu, hvar og hvenær sem þörf er á.
  • Að innleiða rafræna sjúkraskrá á landsvísu sem uppfyllir lágmarkskröfur heilbrigðisyfirvalda og styður við rétta skráningu.
  • Að koma á fót gagnvirkum, rafrænum aðgangi stofnana og starfsstöðva í heilbrigðisþjónustu að tölfræði úr vöruhúsi embættisins um heilbrigðisgögn, með skilgreindum samanburðarupplýsingum.
  • Að almenningur eigi kost á öruggum rafrænum aðgangi að skilgreindum upplýsingum um þá sjálfa með aðstoð upplýsingatækni.              
  • Að stýra verkefnum í upplýsingatækni í heilbrigðisþjónustu sem nýtast á landsvísu.
  • Að leiðbeina og styðja við samræmda skráningu heilbrigðisupplýsinga um allt land.

 

Síðast uppfært 02.03.2017