Öryggisbragur

Sjá stærri mynd

Öryggisbragur er samheiti yfir gildi, viðhorf, skynjun, hæfni og hegðunarmynstur einstaklinga og hópa sem starfa á stofnunum og ákvarða aðferðir og leikni við að stýra öryggismálum stofnunarinnar.

Öryggisbragur er í raun flókið hugtak sem felur m.a. í sér skuldbindingu stofnana og forystu þeirra um að tryggja öryggi sjúklinga og hann byggir á samskiptum; samstarfi og skráningu atvika.

Öryggisbragur hefur mikil áhrif á öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu og við mat á áhættu er öryggisbragur talinn einn mikilvægasti þátturinn.

Þrep öryggisbrags
Öryggisbragur stofnana getur verið mjög misjafn, allt frá því að vera mjög vanþróaður til þess að vera svokallaður skapandi öryggisbragur. Í hinum fyrrnefnda er leitað að sökudólgi í stað þess að leita lausna, en slíkur hugsunarháttur hvetur ekki til þess að nýta atvik til umbóta.

Þegar öryggisbragur er hins vegar mjög þróaður er öryggi sjúklinga talin ein helsta auðlind stofnunarinnar og áhættustjórnun er þá samofin öllu því sem gert er. Slíkur öryggisbragur einkennist af opnum samskiptum og gagnkvæmu trausti milli starfsmanna og sjúklinga.

Síðast uppfært 28.07.2021