Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu

Sjá stærri mynd

Embætti landlæknis hefur lögum samkvæmt það hlutverk að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og hafa eftirlit með henni. Til þess að sinna þessu hlutverki gefur embættið m.a. út tilmæli, viðmið og leiðbeiningar, fylgist með því að faglegar kröfur hvarvetna í heilbrigðisþjónustunni séu uppfylltar og hefur eftirlit með heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsfólki. Í þessu skyni velur embættið einnig tiltekna gæðavísa sem sýna gæði og öryggi á mælanlegan hátt. 

Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu eru í brennidepli víða um heim ekki hvað síst á Norðurlöndum. Þessi tvö hugtök eru nátengd og samofin þar sem öryggi þjónustunnar hefur mikil áhrif á gæði hennar.

Skilgreiningar
Gæði í heilbrigðisþjónustu segja til um:

  • Að hve miklu leyti heilbrigðisþjónusta eykur líkur á bættri heilsu og auknum lífsgæðum fyrir einstaklinga og samfélag.
  • Að hve miklu leyti þjónustan er veitt í samræmi við bestu þekkingu sem völ er á. 

Meginþættir gæða í heilbrigðisþjónustu eru eftirfarandi: Öryggi, rétt tímasetning, skilvirk og árangursrík þjónusta, jafnræði og notendamiðuð þjónusta. 

Öryggi í heilbrigðisþjónustu

  • Nauðsynleg skilyrði til að notandi heilbrigðisþjónustu eigi ekki á hættu að hljóta skaða af meðferð og annarri þjónustu sem ætlað er að bæta heilsu hans eða lífsgæði.

Gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu tengjast ótal þáttum, en undirstaðan er sú menning sem er ríkjandi á hverri stofnun og ræðst hún m.a. af viðhorfum, gildum, reglum, hugmyndafræði og hugsjónum þeirra sem þar starfa.

Gæði og öryggi koma ekki af sjálfu sér og nást einungis fram með stöðugri umbótavinnu.

Embætti landlæknis gaf út ritið Eflum gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Í því er að finna leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstofnanir, sem fagráð embættisins um sjúklingaöryggi hefur unnið að. Mælst er til þess að stofnanir í heilbrigðisþjónustu noti leiðbeiningarnar og fagráðið hefur lagt kapp á að gera þær eins hagnýtar og kostur er.

Í ítarefni hér fyrir neðan er fjallað nánar um nokkra mikilvæga þætti í gæðastarfi.