RAI-gæðavísar

Sjá stærri mynd

RAI-gæðavísar eru notaðir til að fylgjast gæðum þjónustunnar á hjúkrunarheimilum. Um árabil hafa stjórnendur hjúkrunar á hjúkrunarheimilum getað fylgst með niðurstöðum RAI-gæðavísa hjá sér og nýtt þá til þess að setja fram viðmiðunarmörk um hjúkrun.

Árið 2010 voru sett íslensk gæðaviðmið fyrir RAI gæðavísa sem unnin voru af hópi sérfræðinga undir stjórn dr. Ingibjargar Hjaltadóttur sérfræðings í öldrunarhjúkrun. Þetta eru stöðluð gæðaviðmið sem taka mið af aðstæðum á Íslandi og byggja jafnframt á vísindalegri þekkingu, sjá töflu hér að neðan.

Hafa þarf í huga að gæðavísar eru ávallt vísbendingar um hvernig meðferð og umönnun er á hjúkrunarheimilum en ekki algildur sannleikur. Því þarf ávallt að skoða hvert viðfangsefni fyrir sig og kanna hverjar ástæðurnar eru fyrir því að ákveðin vísbending kemur fram.

 

Tafla. Efri og neðri gæðaviðmið fyrir 20 RAI-gæðavísa

Tafla yfir RAI gæðavísa sem lýsir efri og neðri mörkum gæðaviðmiða.

Íslensk gæðaviðmið

Gæðaviðmið fyrir einstaka gæðavísa eru sýnd í töflunni hér að ofan. Þar koma fram bæði efri og neðri gæðaviðmið hvers gæðavísis. Viðmiðin eru skilgreind á eftirfarandi vegu:

Lélegt gæðaviðmið (efri mörk) er það viðmið sem talið er lýsa vandamáli sem er til staðar varðandi umönnun og meðferð íbúans. Þetta viðfangsefni þarf að kanna frekar og þarfnast umbóta.

Gott gæðaviðmið (neðri mörk) er það viðmið sem talið er lýsa góðri eða framúrskarandi umönnun og meðferð. Þar þarf að vinna að því að viðhalda þeim gæðum og ef unnt er að bæta þau enn frekar.


Gæðaeftirlit

Í tengslum við gæðaviðmiðin hefur verið unnið hjálparskjal þar sem hægt er að setja inn upplýsingar úr RAI-gæðavísunum þannig að hægt er að sjá í fljótu bragði hvar heimilin standa varðandi  íslensku gæðaviðmiðin.

Í skjalinu eru sett upp línurit fyrir alla 20 gæðavísana sem notaðir eru á Íslandi. Í fyrirsögn línuritanna er hver gæðavísir merktur með númeri sem er það sama og í RAI-forritinu. Sumir eru einnig stjörnumerktir, en það eru þeir gæðavísar sem taldir eru vera bestir til að bera saman á milli hjúkrunarheimila.

Aðeins einn gæðavísir er á hverri síðu og er nafn hans og númer á flipanum fyrir síðuna. Vakin er athygli á því að á fyrstu síðunni eru leiðbeiningar um notkun skjalsins.

Embætti landlæknis hefur beint þeim tilmælum til stjórnenda hjúkrunarheimila að þau nýti sér þessi viðmið til að fylgjast með gæðum þjónustunnar og grípi til umbóta á grunni þeirra.

Einnig notar embættið þessi viðmið til að fylgjast með gæðum þjónustu á hjúkrunarheimilum.

 

Síðast uppfært 23.03.2017