RAI-mat

Sjá stærri mynd

RAI (e. Resident Assessment Instrument) er yfirgripsmikið þverfaglegt tæki sem metur hjúkrunarþarfir og heilsufar íbúa á hjúkrunarheimilum með áherslu á gæði þjónustunnar sem veitt er. RAI-matstækið var þróað í Bandaríkjunum á níunda áratug síðustu aldar og hefur verið þýtt og staðfært víða um heim í fjölþjóðlegu samstarfi sem nefnist inter-RAI (sjá vefsetrið www.interrai.org).

Embætti landlæknis á lögum samkvæmt að hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt er hér á landi uppfylli faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. 

Embættið nýtir sér m.a. niðurstöður RAI-mats við úttektir á hjúkrunarheimilum.

Rafræn skráning

Rafræn skráning RAI-mats hófst árið 2003 og hafði ráðuneyti heilbrigðismála þá gert samning við verkfræðistofuna Stika ehf. um rekstur og hýsingu gagnagrunna vegna RAI-mats.Ráðuneytið var á þeim tíma jafnframt ábyrgðaraðili gagnagrunnsins. 

Þann 1. mars 2012 var embætti landlæknis falin ábyrgð á og yfirumsjón með öllum þáttum sem lúta að þróun og uppbyggingu rafrænnar sjúkraskrár og rafrænna samskipta með heilbrigðisupplýsingar. 

Til að tryggja gagnaöryggi og persónuvernd eru gögnin dulkóðuð í tölvusamskiptum. Með því að safna gögnunum í miðlægan gagnagrunn er hægt að fá heildarmynd af heilsufari og aðbúnaði aldraðra á öllum hjúkrunarheimilum á landinu. Hver stofnun hefur aðeins aðgang að sínum gögnum.

Notagildi RAI-mats er ótvírætt:

  • Það stuðlar að einstaklingsbundinni meðferðaráætlun og markvissari hjúkrunarmeðferð.
  • Það gefur möguleika á að fylgjast með gæðum þjónustunnar og vinna umbótastarf ef þörf krefur.

Eitt af markmiðum með skráningu RAI-mats er að auka gæði og öryggi meðferðar.

 

Síðast uppfært 28.07.2021