Siðareglur tannlækna

Siðareglur Tannlæknafélags Íslands (Codex ethicus).

Samþykktar á aðalfundi félagsins árið 2006. 

I. Inngangur 

Starf tannlækna er trúnaðarstarf í þágu samfélagsins. Því fylgja viss réttindi en jafnframt rík ábyrgð. Tannlæknar eru skuldbundnir til að þjóna skjólstæðingum af fagmennsku og réttsýni. Vandaður tannlæknir býr í senn yfir góðri þekkingu og tæknilegri færni, og mannkostum á borð við heiðarleika, sanngirni, velvild og samúð. Tannlæknar gera sér grein fyrir því að traust almennings á stétt þeirra byggist á því að hver tannlæknir sé reiðubúinn að hafa faglegar og siðferðilegar hugsjónir að leiðarljósi í starfi. 

Nokkrar meginreglur liggja siðareglum þessum til grundvallar. Þær eru:

 

  • Hlutverk tannlæknis er að stuðla að heilbrigði og berjast gegn sjúkdómum.
  • Tannlæknir gætir þess að valda sjúklingum ekki skaða eða óþörfum sársauka.
  • Tannlæknir kemur fram af virðingu við sjúklinga. Hann virðir rétt þeirra til upplýsinga og til að velja milli meðferðarkosta.
  • Tannlæknir gætir réttlætis og fer ekki í manngreinarálit.
  • Tannlæknir virðir tannlæknisstarfið og er stétt sinni til sóma.

 

II. Samband tannlæknis og sjúklings 

1. gr. 

Tannlæknir skal leitast við að hjálpa heilbrigðum til að varðveita heilsu sína, lina þjáningar sjúkra og hjálpa þeim til að öðlast heilsu á ný.

2. gr. 

Tannlæknir skal rækja starf sitt án manngreinarálits af vandvirkni og samviskusemi. Hann sinnir hverjum sjúklingi af alúð, hvað sem líður aðstöðu eða högum sjúklings.

3. gr. 

Tannlæknir skal leita eftir samþykki sjúklings eða forráðamanns fyrir meðferð. 

Mikilvægt er að tannlæknir skýri sjúklingi eða forráðamanni frá ástandi hans, sjúkdómi, meðferðarþörf, meðferðarkostum og mögulegum aukaverkunum meðferðar. Sjúklingi skal ávallt gefinn kostur á að spyrja spurninga.

4. gr. 

Tannlæknir skal upplýsa sjúkling um mikilvægi forvarna svo sem tannhirðu matarvenja og heilbrigðs lífernis.

5. gr. 

Tannlæknir skal sýna sjúklingum sínum nærgætni og leitast við að draga úr kvíða þeirra. Hann skal bregðast við umkvörtunum sjúklinga og leita leiða til að komast til móts við þær.

6. gr. 

Tannlæknir ber ábyrgð á að sjúklingur sem til hans leitar fái viðhlítandi meðferð. Tannlæknir hættir ekki umönnun sjúklings nema hann hafi látið sjúklingnum í té allar nauðsynlegar upplýsingar varðandi meðferð og gert sjúklingi grein fyrir ákvörðun sinni. 

Tannlæknir skal stuðla að því að meðferð sjúklings sé samfelld. Óski sjúklingur eftir að skipta um tannlækni skal auðvelda honum það með afhendingu nauðsynlegra gagna.

Ef aðgerð sú sem sjúklingur þarfnast er ekki á færi tannlæknis ber honum að höfðu samráði við sjúkling, að leita aðstoðar annarra tannlækna, heilbrigðisstétta eða stofnana. Tannlæknir skal kalla til og leita álits eða aðstoðar annars tannlæknis, óski sjúklingur eftir því eða ef líklegt er að það gæti orðið sjúklingi til hagsbóta.

7. gr. 

Tannlæknir skal veita sjúklingi nákvæmar og réttar upplýsingar um alla áhættu og kostnaðarþætti meðferðar svo fljótt sem auðið er. Hann skal forðast að svara fyrirspurnum um þóknun fyrir tannlæknisaðgerðir án skoðunar og sjúkdómsgreiningar.

8. gr. 

Tannlæknir skal ávallt aðstoða sjúkling sem þarf á bráðaþjónustu að halda, eða gera ráðstafanir til að sjúklingur geti fengið slíka þjónustu.

9. gr. 

Tannlækni er skylt að forðast af fremsta megni að hafast nokkuð að, er veikt geti trúnaðarsamband hans við sjúklinga sína. 

Tannlækni er óheimilt að ljóstra upp einkamálum, sem sjúklingar hafa skýrt honum frá eða hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu, nema með samþykki sjúklings, eftir úrskurði eða samkvæmt lagaboði Einnig ber honum að áminna samstarfsfólk um að gæta fyllstu þagmælsku um allt, er varðar sjúklinga hans.

10. gr. 

Tannlæknir skal hafa hugfast að náin persónuleg kynni geta haft áhrif á faglega dómgreind hans og sjálfstæði. Ótilhlýðilegt er að tannlæknir taki upp kynferðislegt samband við sjúkling er hann ehefur til meðferðar.

11. gr. 

Tannlæknir skal tryggja öryggi og leynd sjúkraskráa og annarra viðkvæmra persónuupplýsinga, ekki síst ef um er að ræða upplýsingar á rafrænu formi. Öflun og úrvinnsla gagna skal ávallt vera samkvæmt lögum. 

III . Skyldur gagnvart almenningi

12. gr. 

Tannlæknir skal gæta sannsögli og má undir engum kringumstæðum beita sérþekkingu sinni til að villa um fyrir leikmönnum. Hann skal ávallt gæta varkárni í ummælum sínum um fagleg mál hvort sem hann ræðir þau á almennum vettvangi eða við einstaklinga. Hann skal gæta varúðar í umfjöllun um nýjungar í fræðigrein sinni og ekki gefa í skyn að honum séu kunnar aðferðir eða lækningar sem öðrum tannlæknum eru ókunnar.

13. gr. 

Tannlæknir skal leitast við að haga orðum sínum og gjörðum svo að það auki virðingu og góðan orðstír stéttarinnar.

14. gr. 

Tannlæknir virðir rétt almennings til að velja sér tannlækni og skal ekki taka þátt í að takmarka frelsi eða getu fólks til að velja sér tannlækni.

15. gr. 

Tannlæknir skal eins og í hans valdi stendur leitast við að uppfræða almenning um leiðir til að viðhalda góðri tannheilsu og benda á leiðir til bættrar tannverndar og betri lífsgæða í samfélaginu. 

IV. Góðir starfshættir tannlækna

16. gr. 

Tannlæknir skal leggja sig fram um að efla fagið, styðja fagstéttina og halda í heiðri hugsjónir hennar. Hann virðir aðra tannlækna sem starfssystkini og jafningja, og vinnur með þeim að framgangi fagsins og málefnum stéttarinnar.

17. gr. 

Tannlæknir skal leitast við að byggja meðferð sína, starf og ráðleggingar á niðurstöðum viðurkenndra rannsókna og reynslu.

18. gr 

Tannlæknir skal ekki fara út fyrir það verksvið, sem menntun hans tekur til.

19. gr. 

Tannlækni ber að viðhalda þekkingu sinni og færni, og endurnýja hana, allan starfsferil sinn. Tannlæknir skal líta á fræðslustarf sem sjálfsagða skyldu og kosta kapps um að miðla þekkingu sinni sem víðast til tannlækna, annarra heilbrigðisstétta og almennings.

20. gr. 

Tannlækni er frjálst að hlýða samvisku sinni og sannfæringu við störf sín, svo fremi það brjóti ekki í bága við viðurkenndar aðferðir eða lög. Hann getur neitað að framkvæma læknisverk með öðrum hætti en þekking hans og reynsla segir til um.

21. gr. 

Tannlækni sæmir ekki að taka að sér nokkurt það starf eða verkefni, er takmarkar sjálfstæði hans sem tannlæknis eða ógnar frumskyldu hans gagnvart sjúklingum.

22. gr. 

Tannlæknir er ábyrgur fyrir þeirri meðferð sem hann veitir og skal ávallt veita vandaða þjónustu.

23. gr. 

Tannlæknir er ábyrgur fyrir athöfnum og hæfni starfsfólks síns. Tannlækni er ósæmandi samvinna um tannlækningar nema við tannlækna og aðra þá, sem hafa heimild til slíkra verka samkvæmt lögum. Hann má heldur ekki liðsinna neinum eða villa heimildir á lækningakunnáttu sinni.

24. gr. 

Tannlæknir skal aldrei taka þátt í að falsa vottorð, gefa villandi yfirlýsingar eða misnota á annan hátt stöðu sína sem tannlæknir. Tannlæknir skal færa vandaðar sjúkraskrár og varðveita þær í samræmi við lög. Honum ber einnig að vanda til vottorða og skýrslugerða og gæta þess að þar komi allt fram sem hann veit sannast og réttast.

25. gr. 

Tannlæknir skal gera niðurstöður rannsókna sinna opinberar geti þær stuðlað að heilbrigði og velferð almennings.

26. gr. 

Tannlæknir má ekki gera tilraun til að afla sér viðskipta með óviðeigandi auglýsingum, skrumi eða á annan ósæmilegan hátt til dæmis með því að hampa eða láta hampa menntun sinni, þekkingu, hæfni, afrekum eða vinsældum í ræðu eða riti, í sjónvarpi eða á tölvunetum. Tannlækni er óheimilt að nota lærdómstitla án samþykkis stjórnar TFÍ. 

Tannlækni er einungis heimilt að auglýsa starfa sinn samkvæmt gildandi lögum 

V. Samskipti tannlækna

27. gr. 

Tannlækni er skylt að sýna öðrum tannlæknum drengskap og háttvísi. Honum ber að vera grandvar í umtali við sjúklinga og aðra utanfélagsmenn um verk og framkomu félagsmanna. Hann skal forðast óréttmæta gagnrýni um störf annarra tannlækna eða véfengja þekkingu þeirra. Hann skal ekki eiga hlutdeild í ráðstöfunum sem leitt geta til skerðingar á atvinnuöryggi annars tannlæknis nema öryggi sjúklinga eða almannaheill sé í húfi, að hans áliti. Ef hann telur ástæðu til íhlutunar, vegna vanhæfni eða misferlis tannlæknis í starfi, skal hann snúa sér til stjórnar Tannlæknafélags Íslands eða landlæknis.

28. gr. 

Tannlæknir skal vera reiðubúinn að aðstoða annan tannlækni sem á við vanda að etja. Hann skal virða faglegt álit annarra tannlækna þótt það sé annað en hans sjálfs, svo fremi það brjóti ekki að hans dómi í bága við góða og gilda starfshætti.

29. gr. 

Vísi félagsmaður sjúklingi sínum til annars tannlæknis skal sá er til er vísað aðeins framkvæma þær aðgerðir sem tannlæknir sjúklings óskar eftir eða samþykkir. Að umbeðinni aðgerð lokinni skal sjúklingi vísað aftur til þess tannlæknis er sendi hann, nema sjúklingur lýsi sig andvígan því, og skal sá tannlæknir sem vísað var til gera honum grein fyrir hvað gert var. Óheimilt er að vísa til þriðja aðila, nema samþykki hins fyrsta komi til. 

Um breytingar á þessum siðareglum gilda sömu reglur og um breytingar á lögum TFÍ.

 

<< Til baka