Siðareglur ljósmæðra

Formáli
Hlutverk Alþjóðasambands ljósmæðra (ICM) er að efla þá umönnun sem konum, börnum og fjölskyldum stendur til boða í heiminum í dag með því að stuðla að menntun ljósmæðra, þróun og viðeigandi hagnýtingu á störfum þeirra.

Í samræmi við það meginmarkmið að ljósmóðir skal stuðla að bættri heilsu kvenna, leggur Alþjóðasamband ljósmæðra til eftirfarandi siðareglur til leiðbeiningar við menntun, störf og rannsóknir ljósmæðra.

Þessar siðareglur virða konur sem persónur, stuðla að réttlæti fyrir alla og sanngjarnri dreifingu gæða í heilbrigðisþjónustu. Siðareglurnar byggja á gagnkvæmu trausti og virðingu og á þeirri meginhugsun að sérhvern einstakling beri að virða sem manneskju.

I. Samskipti ljósmæðra
Ljósmæður virða rétt kvenna til að taka upplýstar ákvarðanir og stuðla jafnframt að því að konur taki ábyrgð á afleiðingum eigin ákvarðana.


Ljósmæður vinna með konum og styðja rétt þeirra til að taka virkan þátt í öllum ákvörðunum er lúta að umönnun þeirra. Ljósmæður hvetja konur til að taka þátt í allri umræðu sem á sér stað í samfélagi þeirra um málefni er varða heilsugæslu kvenna og fjölskyldna þeirra.

Ljósmæður starfa ásamt öðrum konum með heilbrigðisyfirvöldum að því að skilgreina þá heilbrigðisþjónustu sem konur hafa þörf fyrir og þær leitast við að tryggja að þeim gæðum sem standa til boða sé réttlátlega skipt með tilliti til forgangs í heilbrigðisþjónustu og aðgangs að henni.

Ljósmæður styðja og styrkja hverja aðra í störfum sínum sem ljósmæður og efla sjálfsvirðingu annarra ljósmæðra sem og sína eigin.

Ljósmæður starfa með öðru fagfólki í heilbrigðisþjónustu og leita stuðnings annarra eða vísa á aðra sérfræðinga þegar þörf konu fyrir umönnun verður ekki sinnt af ljósmóðurinni einni.

Ljósmæður eru sér meðvitaðar um flókin samskipti fagfólks í heilbrigðisþjónustu og þær gera sér ávallt far um að greiða úr óhjákvæmilegum árekstrum.

II. Starf ljósmæðra
Í umönnun sinni fyrir konum og fjölskyldum þeirra virða ljósmæður sjónarmið ólíkra menningarheima en reyna jafnframt að útrýma heilsuspillandi aðferðum er þar eru viðhafðar.

Ljósmæður styrkja raunhæfar væntingar kvenna um barnsburð í þeirra eigin samfélagi, þó skal þess ætið gætt að engin kona hljóti skaða af getnaði eða barnsburði.

Ljósmæður nota fagþekkingu sína til að tryggja að öruggum aðferðum sé beitt við fæðingar undir öllum kringumstæðum og í öllum þjóðfélögum.

Ljósmæður leitast við að sinna sálrænum, líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum þörfum kvenna sem til þeirra leita, hverjar svo sem aðstæður þeirra kunna að vera.

Ljósmæður leitast við að vera öðrum fagmönnum og fjölskyldum fyrirmyndir um eflingu heilbrigðis kvenna á öllum aldri.

Ljósmæður leitast ævinlega við að efla persónulegan, vitsmunalegan og faglegan þroska sinn sem ljósmæður.

III. Faglegar skyldur ljósmæðra
Ljósmæður viðhalda trúnaði gagnvart skjólstæðingum sínum og virða rétt þeirra til einkalífs. Þær beita dómgreind sinni í allri meðferð trúnaðarupplýsinga.

Ljósmæður eru ábyrgar fyrir ákvörðunum sínum og athöfnum og bera ábyrgð á niðurstöðum er tengjast umönnun þeirra.

Ljósmæður geta neitað að taka þátt í störfum sem ganga þvert gegn dýpstu siðferðilegu sannfæringu þeirra. Áherslan á samvisku einstaklingsins má hins vegar ekki verða til þess að konum sé meinaður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Ljósmæður taka þátt í þróun og útfærslu þeirrar heilbrigðisstefnu er stuðlar að bættri heilsu kvenna og fjölskyldna sem von eiga á barni.

IV. Endurmenntun ljósmæðra
Ljósmæður tryggja að rannsóknir og önnur starfsemi er miðar að því að efla fagþekkingu þeirra virði ávallt réttindi kvenna sem persóna.

Ljósmæður efla og miðla fagþekkingu sinni með margvíslegum hætti svo sem með rannsóknum og faglegum umsögnum um störf starfssystkina.

Ljósmæður taka þátt í formlegri menntun ljósmæðranema og annarra ljósmæðra.

 

<< Til baka