Siðareglur næringarfræðinga og næringarráðgjafa

Þekking og hæfni 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu ætíð beita dómgreind sinni í samræmi við aðstæður og viðhafa fagleg vinnubrögð sem byggja á vísindum og viðurkenndri þekkingu. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar vinna samkvæmt hugmyndafræði og sjónarmiðum næringarfræðinnar, axla þá ábyrgð og virða þau takmörk sem fylgja menntun þeirra og starfi. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar viðhalda þekkingu sinni og færni og bera faglega og lagalega ábyrgð á störfum sínum. Þeir taka þátt í þróun þekkingar innan fagsins og þroska hæfileika sína. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar hafa frumkvæði að og eru virkir þátttakendur í stefnumótun í heilsueflingu og næringarmeðferð í þjóðfélaginu auk þess að miðla og nýta þekkingu sína og reynslu í þágu samfélagsins. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar vinna að því að skapa traust almennings á næringarfræði og ?ráðgjöf og láta sig varða orðstír og stöðu fagsins meðal annarra heilbrigðisstétta, almennings, stjórnsýslu og stofnana, bæði á Íslandi og á alþjóðlegum vettvangi.

Samstarf 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu eiga gott samstarf við aðrar heilbrigðisstéttir og vera virkir þátttakendur í teymisvinnu þegar það á við. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu virða skjólstæðinga sína og eiga samráð við þá um næringarmeðferð og ef þörf krefur einnig við aðstandendur þeirra. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu vísa skjólstæðingi til annars aðila telji þeir hag hans betur borgið með þeim hætti. 

Trúnaður 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar rækja störf sín af fordómaleysi og án þess að fara í manngreinarálit vegna færnisröskunar, kynþáttar, menningar, trúarbragða, aldurs, kynferðis, kynhneigðar, þjóðfélagsstöðu eða stjórnmálaskoðana skjólstæðinga sinna. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu fylgja gildandi reglum samkvæmt reglugerð 047/1987 (er í endurskoðun) um starfsheiti og starfsréttindi næringarráðgjafa 7. grein og reglugerð 046/1987 (er í endurskoðun) um starfsheiti og starfsréttindi næringarfræðinga 6. grein um þagnareið og trúnað við skjólstæðinga sem í gildi eru hverju sinni. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu halda skrá yfir skjólstæðinga og fara samkvæmt gildandi reglugerð 227/1991 um geymslu gagna. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu í rannsóknum sínum og þróunarvinnu fylgja þeim siðareglum sem þar gilda. 

Annað 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar auglýsa þjónustu sína eða starfsemi á málefnalegan hátt og gefa ekki í skyn faglega yfirburði umfram aðra fagmenn í auglýsingum eða annarri umfjöllun í fjölmiðlum. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar nota faglega dómgreind í allri umfjöllun um vöru eða þjónustu. 

Næringarfræðingar og næringarráðgjafar skulu upplýsa um kostnað við meðferð eða aðra vinnu áður en hún er framkvæmd/unnin.

Siðareglur þessar voru amþykktar 19. maí 2005

Endurskoðun siðareglna þessara er á ábyrgð siðanefndar Næringarhóps MNÍ og skal þeim komið á framfæri til nýrra félaga. 

Virðing, hæfni, ábyrgð og heiðarleiki. 

 

<< Til baka