Siðareglur lífeindafræðinga

Lífeindafræði:
Lífeindafræðingar stundar rannsóknir í lífvísindum innan heilbrigðiskerfisins og í einkafyrirtækjum.

Lífeindafræðingur:
Lífeindafræðingur sýni í starfi sínu ábyrgð gagnvart einstaklingum, samfélagi og mannkyni, skal vera vandur að virðingu sinni jafnframt því að standa vörð um álit og virðingu stéttar sinnar.

Lífeindafræðingur og skjólstæðingur:
Lífeindafræðingur vinni fordómalaust og án þess að fara í manngreinarálit. Hann virði mannhelgi skjólstæðings síns, sjálfsákvörðunarrétt hans og virði þagnarskyldu varðandi upplýsingar um skjólstæðinga og niðurstöður rannsókna.

Lífeindafræðingur, starfið og menntun:
Lífeindafræðingur virði þá ábyrgð sem starfinu og menntun hans fylgir, tileinki sér nýjungar og auki menntun sína í hvívetna.

Lífeindafræðingur og samstarfsfólk:
Lífeindafræðingur sýni samstöðu með öðrum lífeindafræðingum, rækti samvinnu við aðrar lífvísinda- og heilbrigðisstéttir og miðli af þekkingu sinni og reynslu til samstarfsfólks, nemenda í lífvísindum og annarra heilbrigðishópa.

Lífeindafræðingur og samfélagið:
Lífeindafræðingi ber að sýna sanngirni og réttsýni í hvívetna. Hann
hlýti siðareglum þessum, virði lög stéttar sinnar og samfélagsins.

Siðareglur þessar ber ekki að skoða sem tæmandi lýsingu á góðum starfsháttum lífeindafræðinga. Lífeindafræðingur skal ávallt auðsýna umhyggju og beita dómgreind sinni í samræmi við aðstæður.

 

<< Til baka