Tannlæknar - sérfræðileyfi

Skilyrði fyrir útgáfu sérfræðileyfa í tannlækningum eru skilgreind og skýrð í reglugerð nr. 1121/2012 um menntun, réttindi og skyldur tannlækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. Reglugerðin er sett samkvæmt lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Sérfræðileyfi

Leitað er umsagnar tannlæknadeildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands áður en sérfræðileyfi er veitt.

Sérfræðileyfi má veita í samfélagstannlækningum og klínískum sérgreinum innan tannlækninga. Skilyrt er að sérfræðinám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar eða þess sérsviðs sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til. Viðkomandi sérsvið skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi.

Með klínískum sérgreinum er átt við svið þar sem störf fela í sér bein samskipti við sjúklinga svo og forvarnir, greiningu og meðferð.

Sérfræðinám í tannlækningum skal eigi vera skemmra en þrjú ár.

Til að tannlæknir geti átt rétt á að hljóta sérfræðileyfi skal hann uppfylla eftirtaldar kröfur:

  1. Hafa starfsleyfi sem tannlæknir hér á landi.

  2. Hafa stundað skilgreint sérfræðinám við háskóla og lokið fræðilegu og verklegu námi og uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru við viðkomandi háskóla sem viðurkenndur er af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

  3. Leggja fram ritgerð um efni er snertir sérgrein hans og skal hún sýna þekkingu á vísindalegri aðferðarfræði og getu til að nýta sér fræðirit.

Umsækjanda um sérfræðileyfi í klínískri sérgrein ber að leggja fram sex sjúkraskrár vegna tilfella sem hann hefur sjálfur unnið er sýni sem fjölbreyttasta þekkingu á lausn klínískra vandamála. Sjúkraskrár skulu studdar öllum þeim gögnum sem nauðsynleg eru við mat, greiningu og meðferð viðkomandi vandamála eða sjúkdóms.

Umsækjandi um sérfræðileyfi í samfélagstannlækningum skal leggja fram tvær fræðigreinar sem birst hafa í viðurkenndu sérfræðitímariti eða hafa lokið meistara- eða doktorsprófi í samfélagstannlækningum.

Einnig má staðfesta sérfræðileyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss eða gefa út sérfræðileyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sérmenntaðs tannlæknis gildir reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 510/2020 eða Norðurlandasamningur nr. 36/1993 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna.

Þá er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Undirritaðri umsókn um sérfræðileyfi í tannlækningum skal fylgja:

  • Námsferill. Staðfesting á að umsækjandi hafi lokið meistara- eða doktorsnámi á því sviði sem sótt er um. Nauðsynlegt er að senda inn staðfestan námsferil (e. transcript) frá viðkomandi háskólastofnun.

  • Námsskrá. Sé heiti námskeiða ekki lýsandi fyrir innihald þeirra er nauðsynlegt að senda inn almenna lýsingu á náminu eða námsskrá (e. syllabus).

  • Ritgerð um efni er snertir sérgrein hans og skal hún sýna þekkingu á vísindalegri aðferðarfræði og getu til að nýta sér fræðirit.

  • Umsækjanda um sérfræðileyfi í klínískri sérgrein ber að leggja fram sex sjúkraskrár vegna tilfella sem hann hefur sjálfur unnið er sýni sem fjölbreyttasta þekkingu á lausn klínískra vandamála. Sjúkraskrárnar skulu studdar öllum þeim gögnum sem nauðsynleg eru við mat, greiningu og meðferð viðkomandi vandamála eða sjúkdóms.

  • Umsækjandi um sérfræðileyfi í samfélagstannlækningum skal leggja fram tvær fræðigreinar sem birst hafa í viðurkenndu sérfræðitímariti eða hafa lokið meistara- eða doktorsprófi í samfélagstannlækningum.

Útfyllta og undirritaða umsókn um starfsleyfi skal senda embætti landlæknis ásamt staðfestum ljósritum af nauðsynlegum gögnum. Með staðfestu ljósriti er átt við að samræmi milli frumrits og ljósrits sé staðfest. Gögn fást staðfest hjá viðkomandi skóla (ef nám var stundað á Íslandi) hjá embætti landlæknis eða hjá sýslumanni.

Gjöld fyrir starfsleyfi og vottorð

Greiða ber til ríkissjóðs fyrir útgáfu starfs- og sérfræðileyfa og vottorða sem embætti landlæknis gefur út. Mælt er fyrir um þessi gjöld í lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.

Gjald fyrir útgáfu starfsleyfis og sérfræðileyfis er 12.000 kr. en 2.700 kr. fyrir vottorð vegna starfsleyfis.

Gjöld fyrir umsögn

Þegar senda þarf umsókn til umsagnar er innheimt gjald samkvæmt gjaldskrá heilbrigðisráðuneytisins fyrir mat umsóknar um heimild heilbrigðisstarfsmanns til að gegna starfi hér á landi.

  • Gjald vegna mats umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli menntunar á háskólastigi sem aflað er utan Íslands er 50.000 kr.
  • Gjald vegna mats umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli menntunar á framhaldsskólastigi sem aflað er utan Íslands er 25.000 kr.

Síðast uppfært 11.01.2023

<< Til baka