Læknar - sérfræðileyfi

Skilyrði fyrir útgáfu sérfræðileyfa í læknisfræði eru skilgreind og skýrð í reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi og í reglugerð nr. 29/2017 og nr. 411/2021 um breytingu á reglugerð. Reglugerðirnar eru settar samkvæmt lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Breytt vinnubrögð varðandi veitingu sérfræðileyfa í læknisfræði. Sjá frétt 14. des. 2017.

Sérfræðileyfi

Leitað er umsagnar læknadeildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands áður en sérfræðileyfi er veitt.

Sérfræðileyfi má veita í sérgreinum læknisfræði. Skilyrði er að sérfræðinám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til. Viðkomandi sérgrein skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi.

Til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skal hann uppfylla eftirtaldar kröfur:

 1. Hafa lokið embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands skv. 3. gr. og starfs­námi skv. 4. gr. eða hafa lokið sambærilegu námi erlendis

 2. hafa hlotið almennt lækningaleyfi hér á landi skv. 2. gr.

 3. hafa lokið viðurkenndu sérnámi og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 8. og 9. gr.

  Umsækjandi um sérfræðileyfi í sérgrein og undirsérgrein innan læknisfræði skal fyrst hafa hlotið sérfræðileyfi í því ríki þar sem sérnámið eða meirihluti sérnáms fór fram og þar sem sérnámi lauk.

Einnig má staðfesta sérfræðileyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss eða veita sérfræðileyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sérmenntaðs læknis sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, gildir reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 510/2020, eða Norðurlandasamningur nr. 36/1993 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna.

Þá er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Einnig er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi í landi sem gerir sambærilegar kröfur um nám og gerðar eru í reglugerð þessari enda þótt námstilhögun sérfræðináms hafi verið frábrugðið kröfum samkvæmt reglugerð þessari.

Undirritaðri umsókn um sérfræðileyfi í læknisfræði skal fylgja:

 • Staðfest ljósrit af erlendu sérfræðileyfi.

 • Ef um er að ræða erlent sérfræðileyfi innan EES og Sviss þarf vottorð (letter of confirmity) frá lögbæru stjórnvaldi í því landi sem gaf út vitnisburð um formlega menntun og hæfi sem staðfestir að nám viðkomandi uppfylli skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, samkvæmt reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011.

 • Gögn sem staðfesta að umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis skv. reglugerð 467/2015.

 • Gögn sem staðfesta sérnám. Staðfest ljósrit af:

  • Prófskírteinum,
  • Vottorðum um námsstöður og störf sem hann hefur gegnt.
 • Mikilvægt er að umsókninni fylgi:
  • Gögn er varða vísindavinnu eða aðra rannsóknarvinnu s.s. gæðaverkefni.
  • Sérprent eða ljósrit af greinum sem umsækjandi hefur skrifað og birt. 

 • Þá er umsækjanda heimilt að senda inn meðmæli eða önnur gögn sem votta hvernig hann hefur staðið sig í starfi.

Gjöld fyrir starfsleyfi og vottorð

Greiða ber til ríkissjóðs fyrir útgáfu starfs- og sérfræðileyfa og vottorða sem embætti landlæknis gefur út. Mælt er fyrir um þessi gjöld í lögum nr. 88/1991 um aukatekjur ríkissjóðs.

Gjald fyrir útgáfu starfsleyfis og sérfræðileyfis er 12.000 kr. en 2.700 kr. fyrir vottorð vegna starfsleyfis.

Gjöld fyrir umsögn

Þegar senda þarf umsókn til umsagnar er innheimt gjald samkvæmt gjaldskrá heilbrigðisráðuneytisins fyrir mat umsóknar um heimild heilbrigðisstarfsmanns til að gegna starfi hér á landi.

 • Gjald vegna mats umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli menntunar á háskólastigi sem aflað er utan Íslands er 50.000 kr.
 • Gjald vegna mats umsóknar um starfsleyfi og sérfræðileyfi á grundvelli menntunar á framhaldsskólastigi sem aflað er utan Íslands er 25.000 kr.

Síðast uppfært 11.01.2023

<< Til baka