Læknar - sérfræðileyfi

Skilyrði fyrir útgáfu sérfræðileyfa í læknisfræði eru skilgreind og skýrð í reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi og í reglugerð nr. 29/2017 um breytingu á reglugerð  nr. 467/2015. Reglugerðirnar eru settar samkvæmt lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Lækni sem fengið hefur hafið skipulagt sérnám fyrir gildistöku ofannefndrar reglugerðar, hinn 24. apríl 2015, er skv. bráðabirgða-
ákvæði heimilt að sækja um sérfræðileyfi á grundvelli eldri reglugerðar um sama efni, nr. 1222/2012, í allt að fimm ár frá gildistöku nýrri reglugerðarinnar.

Breytt vinnubrögð varðandi veitingu sérfræðileyfa í læknisfræði. Sjá frétt 14. des. 2017.

Sérfræðileyfi

Leitað er umsagnar læknadeildar heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands áður en sérfræðileyfi er veitt.

Sérfræðileyfi má veita í sérgreinum læknisfræði. Skilyrði er að sérfræðinám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til. Viðkomandi sérgrein skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi.

Til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skal hann uppfylla eftirtaldar kröfur:

  1. Hafa lokið embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands og viðbótarnámi eða hafa lokið sambærilegu námi erlendis.

  2. Hafa hlotið fullt og ótakmarkað lækningaleyfi hér á landi áður en sérfræðinám hefst.

  3. Hafa lokið viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein.

Einnig má staðfesta sérfræðileyfi frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Sviss eða veita sérfræðileyfi á grundvelli menntunar frá fyrrgreindum ríkjum. Um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sérmenntaðs læknis sem uppfyllir skilyrði tilskipunar 2005/36/EB, um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, með síðari breytingum, gildir reglugerð um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum, nr. 461/2011, eða Norðurlandasamningur nr. 36/1993 um sameiginlegan norrænan vinnumarkað fyrir ákveðnar heilbrigðisstéttir og dýralækna.

Þá er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa sambærilegu prófi frá menntastofnun í ríki utan EES eða Sviss sem viðurkennd er sem slík af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum þess ríkis þar sem námið var stundað.

Einnig er heimilt að veita sérfræðileyfi þeim sem lokið hafa viðurkenndu sérfræðinámi eða sérfræðiprófi í landi sem gerir sambærilegar kröfur um nám og gerðar eru í reglugerð þessari enda þótt námstilhögun sérfræðináms hafi verið frábrugðið kröfum samkvæmt reglugerð þessari.

Undirritaðri umsókn um sérfræðileyfi í læknisfræði skal fylgja:

  • Staðfest ljósrit af erlendu sérfræðileyfi.

  • Gögn sem staðfesta að umsækjandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis skv. reglugerð nr. 1222/2012, þ.á m. staðfestingu frá viðkomandi sviði, yfirlækni eða kennslustjóra um að umsækjandi hafi starfað þar sem deildarlæknir.

Útfylltar umsóknir um sérfræðileyfi þarf að undirrita og senda Embætti landlæknis ásamt staðfestum ljósritum af nauðsynlegum gögnum. Með staðfestu ljósriti er átt við að samræmi milli frumrits og ljósrits sé staðfest, en gögnin fást staðfest hjá viðkomandi skóla (ef nám var stundað á Íslandi), hjá Embætti landlæknis, á lögreglustöðvum eða hjá sýslumanni.

Umsókn um vottorð vegna starfsleyfis má senda Embætti landlæknis í pósti, símbréfi eða í tölvupósti á mottaka@landlaeknir.is
ATH. Gildistími slíkra vottorða er hámark þrír mánuðir frá útgáfudegi þeirra.

Gjöld fyrir starfsleyfi, vottorð starfsleyfa og viðurkenningar

Gjald fyrir útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa er kr. 8.300.- en kr. 2.000.- fyrir vottorð vegna starfsleyfis. Við afgreiðslu leyfis er greiðsluseðill sendur umsækjanda.

Gjald er innheimt vegna umsóknar heilbrigðisstarfsmanns um starfsleyfi eða sérfræðileyfi þegar senda þarf umsókn til umsagnar.

Vegna mats umsóknar um starfsleyfi á grundvelli menntunar á háskólastigi: Kr. 50.000

Vegna mats umsóknar um starfsleyfi á grundvelli menntunar á framhaldsskólastigi: Kr. 25.000

Greiðsluseðill er sendur umsækjanda til innheimtu gjaldsins.

Síðast uppfært 09.06.2017

<< Til baka