Lífeindafræðingar - sérfræðileyfi

Skilyrði fyrir útgáfu sérfræðileyfa í lífeindafræði eru skilgreind og skýrð í reglugerð nr. 1132/2012 um menntun, réttindi og skyldur lífeindafræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi. Reglugerðin er sett samkvæmt lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Sérfræðileyfi

Áður en sérfræðileyfi er veitt leitar landlæknir umsagnar námsbrautar í lífeindafræði við læknadeild heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands um hvort umsækjandi uppfylli skilyrði ofangreindrar reglugerðar.

Sérfræðileyfi má veita í klínískum sérgreinum eða sérsviðum innan lífeindafræði. Skilyrt er að sérnám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar eða þess sérsviðs sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til. Viðkomandi sérsvið eða sérgrein skal standa á traustum fræðilegum grunni og eiga sér samsvörun á viðurkenndum alþjóðlegum vettvangi. Með klínísku sérsviði eða sérgrein er átt við rannsóknastörf í lífvísindum.

Til að lífeindafræðingur geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skal hann uppfylla eftirtaldar kröfur:

  1. Hafa starfsleyfi sem lífeindafræðingur hér á landi.

  2. Hafa lokið meistaraprófi eða doktorsprófi í lífeindafræði frá viður­kenndum háskóla eða hafa sambærilega menntun.

  3. Hafa unnið sem lífeindafræðingur að loknu prófi skv. 2. tölulið sem svarar til að minnsta kosti tveggja ára í fullu starfi við þá sérgrein eða á því sérsviði sem umsókn hans um sérfræðingsleyfi tekur til. Sé starfshlutfall lægra, lengist tíminn sem því nemur.

Til frádráttar geta komið allt að tólf mánuðir í fullu starfi ef viðkomandi hefur starfað samhliða doktorsnámi á viðkomandi sérsviði.

Undirritaðri umsókn um sérfræðileyfi í lífeindafræði skal fylgja:

  • Námsferill. Staðfesting á að umsækjandi hafi lokið meistara- eða doktorsnámi á því sviði sem sótt er um. Nauðsynlegt er að senda inn staðfestan námsferil (e. transcript) frá viðkomandi háskólastofnun.

  • Námsskrá. Sé heiti námskeiða ekki lýsandi fyrir innihald þeirra er nauðsynlegt að senda inn almenna lýsingu á náminu eða námsskrá (e. syllabus).

  • Verkefni á sérsviði. Komi ekki skýrt fram í þessum gögnum að námið hafi verið á því sviði sem sótt var um getur umsækjandi sent inn frekari gögn eins og námsritgerðir og lýsingar á námi.

  • Lokaverkefni. Óskað er eftir upplýsingum um heiti lokaverkefnis og stuttri lýsingu á því. Gagnlegt er að lokaverkefni fylgi umsókn.

  • Starfsvottorð. Staðfesting á að umsækjandi hafi starfað á því sviði sem óskað er eftir viðurkenningu á og jafnframt tímalengd og starfshlutfall. Til að fullnægja kröfu um fullt starf í tvö ár gæti umsækjandi þurft að leggja fram starfsvottorð frá fleirum en einum aðila. Í öllum tilvikum er nauðsynlegt að fram komi hvert var starfssvið umsækjanda, starfshlutfall og tímalengd ráðningar.

Útfylltar umsóknir um sérfræðileyfi þarf að undirrita og senda Embætti landlæknis ásamt staðfestum ljósritum af nauðsynlegum gögnum. Með staðfestu ljósriti er átt við að samræmi milli frumrits og ljósrits sé staðfest, en gögnin fást staðfest hjá viðkomandi skóla (ef nám var stundað á Íslandi), hjá Embætti landlæknis, á lögreglustöðvum eða hjá sýslumanni.

Umsókn um vottorð vegna sérfræðileyfis má senda Embætti landlæknis í pósti, símbréfi eða í tölvupósti á mottaka@landlaeknir.is
ATH. Gildistími slíkra vottorða er hámark þrír mánuðir frá útgáfudegi þeirra.

Gjöld fyrir starfsleyfi, vottorð starfsleyfa og viðurkenningar

Gjald fyrir útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa er kr. 8.300.- en kr. 2.000.- fyrir vottorð vegna starfsleyfis. Við afgreiðslu leyfis er greiðsluseðill sendur umsækjanda.

Gjald er innheimt vegna umsóknar heilbrigðisstarfsmanns um starfsleyfi eða sérfræðileyfi þegar senda þarf umsókn til umsagnar.

  • Vegna mats umsóknar um starfsleyfi á grundvelli menntunar á háskólastigi: Kr. 50.000
  • Vegna mats umsóknar um starfsleyfi á grundvelli menntunar á framhaldsskólastigi: Kr. 25.000

Greiðsluseðill er sendur umsækjanda til innheimtu gjaldsins.

Síðast uppfært 07.03.2016

<< Til baka