Starfsleyfi

Sjá stærri mynd

Þann 1. janúar 2013 tóku gildi lög um heilbrigðisstarfsmenn, lög nr. 34/2012. Þá féllu brott sérstök lög og reglugerðir um einstakar heilbrigðisstéttir. Í þeirra stað voru gefnar út nýjar reglugerðir um hverja heilbrigðisstétt fyrir sig. Unnt er að nálgast lögin og reglugerðirnar í dálkinum hér til vinstri.

Nauðsynlegt er að umsóknir um starfsleyfi og sérfræðileyfi séu vel útfylltar og að þeim fylgi öll tilskilin gögn. Umsækjendum er bent á að kynna sér vel reglugerð viðkomandi stéttar ásamt leiðbeiningum um hvaða gögn skuli fylgja umsókn en þær upplýsingar má finna undir hverri stétt hér fyrir neðan sem og á umsóknareyðublaði hverrar stéttar. Öll mál eru afgreidd eins hratt og mögulegt er.  Athygli er vakin á því á að ekki er unnt að verða við óskum um flýtimeðferð einstakra mála. 

Markmið embættisins er að vinnsla við umsókn um starfsleyfi eða sérfræðileyfi hefjist ekki síðar en fjórum vikum eftir að umsókn berst. Embætti landlæknis vekur athygli á því að miðað er við að afgreiðsla umsókna frá umsækjendum með menntun innan EES taki ekki lengri tíma en 4 mánuði frá því að öll gögn liggja fyrir, að því er varða þær stéttir sem senda þarf til umsagnar. Miðað er við að afgreiðslutími umsókna um starfsleyfi, til að starfa í hinum svokölluðu samræmdu stéttum (lyfjafræðingar, læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, tannlæknar), sé almennt ekki lengri en 3 mánuðir frá því að öll gögn liggja fyrir. Með því er átt við að öll tilskilin gögn með umsókn, umsögn sem embættið aflar ef þörf krefur sem og athugasemdir umsækjanda við umsögn, liggi fyrir. Er framangreint í samræmi við ákvæði tilskipunar 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi, sem síðari breytingum og reglugerðar nr. 510/2020 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi heilbrigðisstarfsmanna frá öðrum EES-ríkjum eða Sviss til að starfa hér á landi.

Endurútgáfa starfsleyfa

Glati einstaklingur útgefnu leyfisbréfi er ekki hægt að óska eftir endurútgáfu eða afriti af starfsleyfi. Aftur á móti er hægt að óska eftir vottorði sem staðfestir að viðkomandi hafi gilt starfsleyfi. Hér er sótt um vottorð.

Gjöld fyrir starfsleyfi, vottorð starfsleyfa og viðurkenningar

Embætti landlæknis innheimtir gjald fyrir útgáfu starfsleyfa, sérfræðileyfa og vottorða vegna starfsleyfa heilbrigðisstarfsmanna.

Einnig er innheimt sérstakt umsýslugjald skv. gjaldskrá velferðar-
ráðuneytisins vegna vinnu við mat á umsóknum og útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa, sjá reglugerð nr. 951/2012 í dálkinum til vinstri.

Sjá frétt: Starfsréttindi heilbrigðisstarfsmanna í kjölfar Brexit

Síðast uppfært 30.05.2022