Öruggt starfsumhverfi

Sjá stærri mynd

Mikilvægt er að starfsumhverfi heilbrigðisstofnana sé eins öruggt og heilbrigt og unnt er enda er öryggi sjúklinga og öryggi heilbrigðisstarfsfólks samofið.


Vinnuslys og óhöpp starfsmanna í heilbrigðisþjónustu
Embættið hefur ákveðið að hætta að kalla inn yfirlit yfir atvik sem starfsfólk heilbrigðisstofnana verður fyrir – en stofnanir eru hvattar til að fylgjast sjálfar með slíkum atvikum og grípa til viðhlítandi ráðstafana.

Einnig þarf að hafa í huga að senda þarf tilkynningu til Vinnueftirlitsins ef starfsmaður er lengur frá vinnu en daginn sem eitthvað atvik verður svo og næsta dag, sjá á vef Vinnueftirlitsins um vinnuslys.

Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980  og reglugerð nr. 920/2006  eru öll vinnuslys og óhöpp skráningarskyld á vinnustöðum og slys, sem valda lengri veikindafjarvistum en degi til viðbótar við slysadag eða þar sem grunur leikur á alvarlegu heilsutjóni, tilkynningarskyld til Vinnueftirlitsins.

Þetta var ítrekað í sameiginlegu dreifibréfi Landlæknisembættisins og Vinnueftirlitsins frá 19. mars 2007. Þá er sérstaklega tekið fram að líkamasárás á starfsmenn ber að skrá eins og um hvert annað vinnuslys væri að ræða. Vakin er athygli á skýrslu á vef embættisins um ógnanir gegn heilbrigðisstarfsfólki, sem út kom árið 2007.


Viðbrögð gagnvart heilbrigðisstarfsfólki
í kjölfar óvænts atviks
Líkt og sjúklingur og fjölskylda hans verða heilbrigðisstarfsmenn sem hlut eiga að óvæntu alvarlegu atviki fyrir tilfinningalegu áfalli í kjölfarið. Þeir þurfa á stuðning að halda til að draga úr líkum á því að það hafi langvarandi áhrif á heilsu og líðan.

Sjá leiðbeiningar embættisins um viðbrögð við óvæntum atvikum:
Viðbrögð við óvæntum atvikum í heilbrigðisþjónustu (PDF)

Síðast uppfært 19.11.2015