Ung- og smábarnavernd

Markmið: Efla heilsu, vellíðan og þroska ungra barna með reglulegum heilsufarsskoðunum ásamt stuðningi og fræðslu til fjölskyldna þeirra.

Sjá stærri mynd

Fylgst er með vitsmuna- og tilfinningaþroska ásamt félagslegum og líkamlegum þroska barna frá fyrstu ævidögum til skólaaldurs. Áhersla er lögð á stuðning við fjölskylduna og þannig stuðlað að því að börnum séu búin bestu mögulegu uppvaxtarskilyrði á hverjum tíma. Mikilvægt er að uppgötva sem fyrst frávik hvað heilsufar og þroska varðar og gera viðeigandi ráðstafanir.

Skipuleg ung- og smábarnavernd hefur verið í boði hér á landi allt frá árinu 1927. Í IV kafla laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 er kveðið á um að hlutverk heilsugæslustöðva sé að sinna heilsugæslu. Í reglugerð fyrir heilsugæslustöðvar nr. 787/2007 er kveðið á um að heilsugæslustöðvar skuli veita ung- og smábarnavernd.

Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á stefnumótun, almennri stjórnsýslu og fjárhagslegu eftirliti með starfi ung- og smábarnaverndar. Embætti landlæknis er ráðuneytinu til ráðgjafar í heilbrigðismálum, þ.m.t. heilsuvernd barna. Fagstjórnendur á hverri heilsugæslustöð bera ábyrgð á heilsugæslu barna á sínu þjónustusvæði og á því að leiðbeiningum Embættis landlæknis um ung- og smábarnavernd sé framfylgt. Kjölfestan í öllu starfi heilsuverndar barna er starf hjúkrunarfræðinga sem njóta stuðnings lækna á grunni leiðbeininga og annarra fagaðila eftir því sem við á. Mikilvægt er að þjónustan sé sveigjanleg og taki mið af þörfum fjölskyldunnar hverju sinni. 

Tilgangur þessara leiðbeininga er einkum að:

  • Lýsa kröfum um ákveðin lágmarksgæði í ung- og smábarnavernd hér á landi.
  • Vera marklýsing fagaðila um innihald ung- og smábarnaverndar.
  • Koma að gagni við grunn-, framhalds- og símenntun heilbrigðisstétta.
  • Samræma innihald leiðbeininga og framkvæmd í ung- og smábarnavernd.

<< Til baka