Sjónskerpupróf

Markmið: Finna börn með frávik á sjónskerpuprófi og vísa þeim í viðeigandi úrræði.

Sjá stærri mynd

Árangursviðmið: Stefnt skal að því að 95% barna séu sjónprófuð í 1., 4., 7. og 9. bekk.


 

Verkþáttur: Sjónprófa börn í 1., 4., 7. og 9. bekk

Framkvæmd sjónprófa:

Með sjónprófi í skóla er sjónskerpa mæld á hvoru auga fyrir sig með því að ákvarða hversu smáa stafi barnið getur lesið úr ákveðinni fjarlægð. Sjónprófað er með HVOT töflu sem samsett er úr 4 bókstöfum, H-V-O-T. Þekki börn ekki stafina er til spjald með sömu bókstöfum sem barnið bendir á. Ekki er hægt að greina fjarsýni með HVOT töflunni.

Leiðbeiningar með notkun á HVOT sjónprófstöflu: Flestar HVOT sjónprófstöflur eru ætlaðar fyrir 3m fjarlægð en til eru töflur sem eru ætlaðar fyrir 4m fjarlægð. Mælingarfjarlægðin stendur oftast á sjónprófstöflunum sjálfum. Mikilvægt að góð lýsing sé fyrir ofan töfluna. Ætíð skal sjónprófa hvort auga fyrir sig og byrja að prófa hægra augað. Barnið skal hafa lepp fyrir auganu sem ekki er verið að prófa. Ekki halda með hönd fyrir augað.

Öll börn með gleraugu á að prófa með gleraugunum. Mikilvægt að fylgjast með hvort barnið píri augun á meðan sjónprófað er. Best er að prófa 1-2 stafi í hverri línu þar til fundin er sú lína sem barnið rétt ræður við. Betra er að nota stafina í miðri línu heldur en jaðarstafi. Barn getur lesið línu ef það les rétt t.d. 4 stafi af 4, 5 stafi af 6 eða 6 stafi af 8. Þeim börnum sem ná ekki að sjá 0,8 á öðru eða báðum augum á að vísa til augnlæknis. Vísa skal 6 ára börnum strax til augnlæknis, ekki bíða, þar sem mögulegt er að hafa áhrif á sjón þeirra.

Ávallt skal hafa samband við foreldra ef vísa þarf barni til augnlæknis. Hafa ber í huga að höfuðverkur, lestrarþreyta og lestrarörðugleikar geta stafað af sjónlagsgöllum. Rétt er að sjónprófa þau börn og í flestum tilvikum er gott að vísa þeim til augnlæknis til að taka af öll tvímæli um sjónlagsgalla.

Verklag og viðmið sjónskerpuprófa er í endurskoðun.

Síðast uppfært 22.03.2019

<< Til baka