Bráðaofnæmi

Ofnæmi er algengt og segja má að allir læknar geti þurft að meta sjúklinga með ofnæmiseinkenni. Í flestum tilvikum er ofnæmi ekki lífshættulegt en ef um bráðaofnæmiskast er að ræða fylgir því sannarlega lífshætta. Til að staðla greiningar á bráðaofnæmiskasti voru gefnar út samræmdar leiðbeiningar World Allergy Organization árið 2011 og uppfærðar árið 2015. Leiðbeiningar þessar voru staðfestar af nánast öllum landsfélögum ofnæmislækna sem starfandi eru og eru aðgengilegar á vef World Allergy.org.

Í samvinnu Félags bráðalækna og Félags ofnæmis- og ónæmislækna hafa nú þessar WAO leiðbeiningar þýddar og staðfærðar til notkunnar á Íslandi.

Nokkuð var rætt í starfshópnum hvernig þýða skyldi heitið "anaphylaxis" yfir á íslensku. Oft hefur verið rætt um bráðaofnæmislost en það skapar ákveðin vandamál því að lostástand er skilgreint í tengslum við önnur bráð vandamál svo sem blæðingarlost, sýkingarlost eða hjartabilunarlost og felur í sér lífshættulega skerðingu á blóðflæði til líffæra. Í ljósi þess að sjúklingur getur verið með "anaphylaxis" án þess að vera í lostástandi var því ekki talið rétt að nota hugtakið bráðaofnæmislost sem jafngildi hugtaksins anaphylaxis. Sem þýðingu á orðinu anaphylaxis er því lagt til að nota orðið bráðaofnæmiskast, skammstafað BOK. Ef sjúklingur er í bráðaofæmiskasti og er kominn í lost er hægt að lýsa því sem bráðaofnæmislosti.

Leiðbeiningum um bráðaofnæmiskast er skipt í tvo megin hluta, annars vegar um hvernig greina skuli bráðaofnæmiskast og hins vegar meðhöndla það. Hér fyrir neðan er slóð á kynningarfyrirlestur um leiðbeiningarnar. Er það ætlað til að auðvelda fyrir kynningu og innleiðslu leiðbeininganna á heilbrigðisstofnunum um land allt. Einnig má hér nálgast leiðbeiningar til sjúklings um bráðaofnæmiskast. Er hægt að nota þær til að prenta út og afhenda sjúklingum. Einnig er hér veggspjald sem nota má við kynningar.

Hjalti Már Björnsson, Unnur Steina Björnsdóttir, María I. Gunnbjörnsdóttir, Sigurveig Þ Sigurðardóttir, Michael V. Clausen, Björn Rúnar Lúðvíksson.

 

Leiðbeiningar til sjúklinga sem hafa fengið bráðaofnæmiskast (pdf) 

Bráðaofnæmiskast fyrirlestur (pdf) 

Bráðaofnæmiskast plakat A4 (pdf) 

<< Til baka