Notkunarleiðbeiningar fyrir eltrombópag (Revolade) - LSH

Notkunarleiðbeiningar fyrir eltrombópag (Revolade)

Eltrombópag er prótein sem líkir eftir verkun vaxtaþáttar sem örvar framleiðslu á blóðflögum í mergnum. Lyfið ýtir undir þroska og framleiðslu blóðflaga og eykur þannig fjölda blóðflaga sem seytt er úr mergnum út í blóðið. Sjálfvakin blóðflögufæð (immune thrombocytopenic purpura, ITP) er sjálfsofnæmisjúkdómur sem einkennist af aukinni eyðingu á blóðflögum og stundum minnkaðri framleiðslu. Sjúkdómurinn getur valdið mikilli lækkun á blóðflögum í blóði og blæðingum. Talað er um langvinnt ITP ef sjúkdómurinn varir lengur en í 12 mánuði. Eltrombópag hefur markaðsleyfi í Evrópu sem meðferð við langvinnu ITP eftir miltistöku þar sem sjúklingur svarar ekki annarri meðferð og einnig hjá sjúklingum sem svara ekki annarri meðferð þar sem miltistaka kemur ekki til greina. Lyfið er notað við ofangreindum ábendingum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Lyfinu var hafnað af NICE árið 2010 þar sem nægjanlega gagnreyndar niðurstöður rannsókna þótti skorta.
Útgefið 24. febrúar 2014
 

Vefsíða yfirfarin 19.03.2014

<< Til baka