Dreifibréf nr. 3/2022. Lifrarbólga af óþekktri orsök í börnum

Efni: Lifrarbólga af óþekktri orsök í börnum

Í nokkrum Evrópulöndum og í a.m.k. einu ríki í Bandaríkjunum hafa undanfarið hálft ár eða svo komið upp óvenju mörg tilfelli bráðrar lifrarbólgu í börnum, sérstaklega börnum undir 10 ára aldri. Sum barnanna hafa þurft lifrarígræðslu. Grunur leikur á að meginkveikjan sé adenóveira 41 þótt aðrir þættir, s.s. nýleg COVID-19 sýking, spili mögulega rullu í sjúkdómsferlinu líka. Svo til öll barnanna hafa verið áður hraust og adenóveira hefur ekki verið til staðar í blóði í miklu magni eins og almennt er hjá ónæmisbældum einstaklingum með adenóveirulifrarbólgu.

Læknar sem sinna börnum eru beðnir um að vera á varðbergi fyrir tilfellum bráðrar lifrarbólgu og tilkynna grunsamleg tilvik til sóttvarnalæknis sem óvænt atvik sem ógnað geta heilsu manna skv. reglugerð um skýrslugerð vegna farsótta nr. 221/2012 m.s.br. Eyðublað vegna skýrslugerðarinnar er að finna hér og í sjúkraskrárkerfi Sögu.

Skilgreining tilfellis bráðrar lifrarbólgu í þessu samhengi (tímabundin, að láni frá Bretum):

  • Barn, 10 ára eða yngra, með bráða lifrarbólgu (ALAT og/eða ASAT >500 U/L) sem ekki er af völdum lifrarbólguveira ABCDE 1. janúar 2022 eða síðar: Staðfest tilfelli.
  • Barn 11˗16 ára með bráða lifrarbólgu (ALAT og/eða ASAT >500 U/L) sem ekki er af völdum lifrarbólguveira ABCDE 1. janúar 2022 eða síðar: Mögulegt tilfelli.
  • Einstaklingur með bráða lifrarbólgu sem ekki er af völdum lifrarbólguveira ABCDE 1. janúar 2022 eða síðar, á öllum aldri, sem hefur tengsl við staðfest tilfelli: Tilfelli með faraldsfræðitengingu.

Sóttvarnalæknir mælist til þess að Barnaspítali Hringsins geri leiðbeiningar fyrir lækna innan og utan sjúkrahúsa um uppvinnslu og meðferð barna sem grunuð eru um bráða lifrarbólgu. Mögulega má byggja þær á verkferlum sem aðrar Evrópuþjóðir hafa sett upp núna, s.s. Írar (sjá mynd 1).

Mynd 1: Sýna- og beiðnaleiðbeiningar frá írskum lýðheilsuyfirvöldum, apríl 2022

Tegundargreining adenóveira er ekki almennt gerð hér á landi en möguleikar á slíkri greiningu í þessu samhengi verða skoðaðir með SVEID LSH og Sóttvarnastofnun Evrópu ef grunur vaknar um tilfelli hér á landi.

Sóttvarnalæknir

<< Til baka