Dreifibréf nr. 1/2022. Skilgreining á dauðsfalli af völdum COVID-19

Efni: Skilgreining á dauðsfalli af völdum COVID-19

  • Dauðsfall af völdum COVID-19 er skilgreint sem dauðsfall sem stafar af veikindum sem samrýmast COVID-19, líklegt eða staðfest1 COVID-19 tilfelli, nema fyrir liggi skýr önnur dánarorsök sem ekki er hægt að tengja við COVID-sjúkdóm (t.d. slys). Ekki ætti að vera tímabil algjörs bata af COVID-19 á milli veikinda og dauða. Ekki ætti að vera lengra en 28 dagar frá greiningu á COVID-19.

1Staðfesting á COVID-19 sýkingu byggist á PCR-greiningu frá rannsóknarstofu eða í undantekningar­tilfellum á hraðgreiningarprófi.

  • Dauðsfall af völdum COVID-19 má ekki rekja til annars sjúkdóms (t.d. krabbameins) og ætti að skrá óháð undirliggjandi ástandi/sjúkdómum sem eru taldir geta kallað fram alvarlegan COVID-19 sjúkdóm.

Dauðsföll af völdum COVID-19 eru frábrugðin COVID-19 tengdum dauðsföllum þar sem COVID-19 er til staðar þegar dauðsfall á sér stað af öðrum örsökum. Þau dauðsföll geta verið vegna slysa eða tilfallandi orsaka, eða vegna náttúrulegra orsaka þegar COVID-19 sjúkdómur er ekki skilgreindur sem undirliggjandi orsök dauða samkvæmt ICD kóðunarleiðbeiningum.

Einstaklingar með COVID-19 geta dáið af völdum annarra sjúkdóma eða slysa. Slík tilfelli eru ekki dauðsföll af völdum COVID-19 og ættu ekki að vera skráð sem slík. Ef talið er að COVID-19 hafi gert afleiðingar t.d. slyss verri má hins vegar tilkynna COVID-19 á sama hátt og undirliggjandi ástand.

Dæmi um COVID-19 tengt dauðsfall sem ekki er af völdum COVID-19 væri hjartabilun vegna hjartaáfalls hjá einstakling með COVID-19 þar sem COVID-19 var ekki talið hafa valdið hjartaáfallinu. Annað dæmi væri dauðsfall vegna blæðingarlosts vegna bráðrar ósæðarflysjunar af völdum bílslyss hjá einstakling með COVID-19. COVID-19 er skráð sem tengt en ekki sem orsök.

COVID-19 ætti að vera skráð á dánarvottorð fyrir ALLA látna þar sem sjúkdómurinn olli, eða er talinn hafa valdið eða stuðlað að dauða. ICD-10 kóði U07.1 (staðfestur COVID-19 sjúkdómur).

Orsakaröðin sem leiðir til dauða er mikilvæg. Til dæmis, í þeim tilvikum þegar COVID-19 veldur lungnabólgu og öndunarbilun sem leiðir til dauða, ætti bæði lungnabólga og öndunarbilun að vera tilgreind ásamt COVID-19. Hafi hinn látni verið með langvinna sjúkdóma, skal tilgreina það í dánarvottorði.

Landlæknir
Sóttvarnalæknir

<< Til baka