Dreifibréf nr. 3/2019. Bólusetning gegn inflúensu

Tilkynning frá sóttvarnalækni

Efni: Bólusetning gegn árlegri inflúensu

 

Pantanir á inflúensubóluefni fyrir veturinn 2019/2020 munu hefjast hjá Parlogis 16.9.2019. Bóluefnið sem notað verður samkvæmt samningi sóttvarnalæknis við Icepharma frá 2017 er Influvac og inniheldur þrjá stofna inflúensu:

  • A/Brisbane/02/2018 (H1N1)pdm09 - líkan stofn
  • A/Kansas/14/2017 (H3N2) - líkan stofn
  • B/Colorado/06/2017- líkan stofn

Dreifing bóluefnisins er ákvörðuð af sóttvarnalækni og miðast við dreifingu veturinn 2018/2019 þar sem áhersla var lögð á bólusetningu áhættuhópa.

Afhending er ókeypis frá seljanda til kaupenda hjá Parlogis ehf., (þ.m.t. í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Garðabæ, Álftanesi og Seltjarnarnesi) og á pósthús eða viðeigandi flutningamiðstöð til kaupenda utan fyrrgreinds svæðis. 

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Barnshafandi konur.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.


Sóttvarnalæknir mælist til þess að ofangreindir forgangshópar fái bóluefnið sér að kostnaðarlausu en til að svo megi verða þarf einungis að krefja þessa einstaklinga um greiðslu fyrir umsýslukostnaði. Sóttvarnalæknir endurgreiðir innkaupsverð bóluefnisins fyrir þessa forgangshópa (ekki umsýslukostnað) en þá þarf að senda reikning til embættis landlæknis fyrir 1. júní 2020 og á honum þarf að koma fram:

  • Númer reiknings, nafn stofnunar, fjöldi skammta og einingarverð bóluefnis.
  • Rafrænt fylgiskjal (excel) þarf að senda samhliða reikningi til sóttvarnalæknis með: Kennitölum hinna bólusettu, dagsetningu bólusetninga, nafni bóluefnis og hvaða áhættuhópi einstaklingarnir tilheyra. 

Ath. að reikningar sem ekki uppfylla ofangreindar kröfur verða ekki afgreiddir.
Nánari upplýsingar gefur Júlíana Héðinsdóttir aðstoðarmaður sóttvarnalæknis
(juliana@landlaeknir.is) s. 510-1900.

Reykjavík, 20. september 2019
Sóttvarnalæknir

<< Til baka