Dreifibréf nr. 2/2018. Bólusetning heilbrigðisstarfsmanna

Tilmæli sóttvarnalæknis

Tilgangur þessara tilmæla, sem gefin eru með stoð í sóttvarnalög, er að tryggja heilbrigði heilbrigðisstarfsmanna sjúkrastofnana og öryggi sjúklinga með því að minnka líkur á útbreiðslu farsótta á sjúkrastofnunum. Það er á ábyrgð hverrar sjúkrastofnunar að hrinda þessum tilmælum sóttvarnalæknis í framkvæmd en kostnaður við framkvæmdina fellur á einstaka sjúkrastofnun nema hvað varðar bólusetningu gegn árlegri inflúensu (sjá neðar).

Skilgreining á heilbrigðisstarfsmanni í þessum tilmælum er sá einstaklingur sem kemur að umönnun veikra einstaklinga á sjúkrastofnun.

1. Við nýráðningu heilbrigðisstarfsmanna skal tryggja að þeir séu fullbólusettir gegn eftirtöldum sjúkdómum (sjá yfirlit yfir almennar bólusetningar á Íslandi)

 • Barnaveiki (Diphtheria)
 • Stífkrampi (Tetanus)
 • Kikhósti (Pertussis)
 • Mænusótt (Polio)
 • Mislingar (Morbilli)
 • Hettusótt (Parotitis epidemica)
 • Rauðir hundar (Rubella)
 • Lifrarbólga B (Hepatitis B)
 • Pneumókokkasýkingar; ein bólusetning fyrir starfsmenn 60 ára og eldri.

Ef viðkomandi er ekki fullbólusettur þá skal bjóða honum bólusetningu samkvæmt ofan-greindum leiðbeiningum.

2. Endurmeta skal bólusetningu heilbrigðisstarfsmanna á 10 ára fresti samkvæmt leiðbeiningum  sóttvarnalæknis.

 • Endurbólusetja skal heilbrigðisstarfsmenn á 10 ára fresti gegn barnaveiki, stífkrampa og kikhósta (dtp). Í dag er á markaði eftirtalið bóluefni til notkunar hjá fullorðnum sem inniheldur ofangreinda mótefnavaka í einni og sömu sprautu: Boostrix®
 • Ef í ljós kemur við endurmat bólusetninga að starfsmaður hafi ekki við ráðningu verið fullbólusettur við mislingum, hettusótt, rauðum hundum eða lifrarbólgu B skal bjóða honum bólusetningu.
 • Ef í ljós kemur við endurmat bólusetninga að starfsmaður sem náð hefur 60 ára aldri hafi ekki verið bólusettur við pneumókokkasýkingum skal bjóða honum bólusetningu.

3. Mælst er til þess að allir heilbrigðisstarfsmenn séu bólusettir gegn árlegri inflúensu. Kostnaður bóluefnisins fellur á sóttvarnalækni.

Reykjavík, 11. desember 2018
Sóttvarnalæknir

<< Til baka