Dreifibréf nr. 2/2016. Leiðbeiningar Embættis landlæknis um ung- og smábarnavernd

Embætti landlæknis hefur gefið út endurskoðaðar leiðbeiningar um ung- og smábarnavernd á landsvísu sem taka gildi frá 9. nóvember 2016.

Landlæknir skipaði árið 2014 ráðgjafahóp til að endurskoða innihald og skipulag í ung- og smábarnavernd í samstarfi við Þróunarsvið heilsugæslunnar. Þeirri vinnu er nú lokið og hafa leiðbeiningarnar verið birtar á vef embættisins og eru því tilbúnar til notkunar á landsvísu.

Mikilvæg nýjung hvað efnistök varðar er að leiðbeiningarnar eru nú settar fram sem tólf skoðanir ung- og smábarna og fyrir hverja skoðun eru settir fram ákveðnir verkþættir. Áhersluþættir í fræðslu og ráðgjöf í hverri skoðun hafa verið endurskoðaðir af ráðgjafahópnum og fræðslukaflar endurskoðaðir af höfundum.

Skipulagi 6 og 30 mánaða skoðana er breytt á þann hátt að engin læknisskoðun fer fram nema ástæða þyki til. Eins og hingað til verður lögð rík áhersla á notkun PEDS í 18, 30 og 48 mánaða skoðunum, en nú einnig í 12 mánaða skoðun. Lögð verður svokölluð Skemmri skimun Brigance-skimunartækisins fyrir öll börn sem koma í 30 og 48 mánaða skoðanir nema í undantekningartilfellum. Ný útgáfa af Brigance kemur út á prenti innan tíðar og munu heilsugæslustöðvar í kjölfarið geta pantað ný gögn sem nota þarf við fyrirlögn skimunartækisins.

Sú meginbreyting er jafnframt gerð á útgáfu leiðbeininganna að þær eru nú eingöngu gefnar út rafrænt á vefsetri Embættis landlæknis. Samhliða endurskoðun leiðbeininganna er unnið að breytingum á þeirri einingu SÖGU-kerfisins sem lýtur að ung- og smábarnavernd og verða þær smám saman teknar í notkun.

Þróunarsvið heilsugæslunnar mun fylgja leiðbeiningum um ung- og smábarnavernd eftir í samstarfi við Embætti landlæknis. Leiðbeiningarnar verða endurskoðaðar reglulega og eru allar ábendingar vel þegnar.

Leiðbeiningar má nálgast á vef Embætti landlæknis á vefsíðunni Leiðbeiningar um ung- og smábarnavernd.

Einnig verður hægt að nálgast leiðbeiningarnar beint af forsíðu vefsins undir fyrirsögninni Leiðbeiningar fyrir heilsugæslu.

 

Landlæknir

Síðast uppfært 09.11.2016

<< Til baka