Dreifibréf nr. 3/2015. Breytingar á bólusetningu gegn HPV

Tilkynning frá sóttvarnalækni

Efni: Breytingar á bólusetningu gegn HPV

 

Bólusetning gegn HPV (human papilloma veiru) hófst hér á landi á árinu 2011 hjá 12 ára stúlkum. Til þessa hefur verið talið að þrjár sprautur af HPV-bóluefninu þurfi til að ná fullri vernd en nú hefur komið í ljós að tvær sprautur með minnst 5–6 mánaða millibili nægja.

Sóttvarnalæknir mælist til þess að frá og með hausti 2015 verði HPV-bólusetningum hjá 12 ára stúlkum fækkað í tvær með a.m.k. 6 mánaða millibili. Ef bólusetning nr. tvö er gefin innan 5 mánaða frá þeirri fyrstu þarf að gefa alls þrjár sprautur og þriðja sprautan er þá gefin a.m.k. 5 mánuðum eftir sprautu nr. tvö. Þessar leiðbeiningar gilda bæði fyrir Cervarix, sem nú er notað í almennum bólusetningum, og Gardasil.
Varðandi notkun bóluefnanna fyrir aðra aldurshópa er vísað í sérlyfjaskrá.

 

Reykjavík, 14. ágúst 2015
Sóttvarnalæknir

 

Sent til heilbrigðisstofnana, læknastofa, Lyfjastofnunar Íslands, Velferðarráðuneytisins, Læknablaðsins og Tímarits hjúkrunarfræðinga.

<< Til baka