Dreifibréf nr. 3/2014. Bólusetning gegn inflúensu

Tilkynning frá sóttvarnalækni

Efni: Bólusetning gegn inflúensu

 

Þrígild bóluefni gegn inflúensu A og B hafa nú verið framleidd fyrir veturinn 2014-2015 samkvæmt ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þau innihalda eftirtalda stofna:

– A/California/7/2009 (H1N1)-like virus*;
– A/Texas/50/2012 (H3N2)-like virus;
– B/Massachusetts/02/2012.
*svínainflúensuveira frá 2009

Frá árinu 2007 hefur sóttvarnalæknir samkvæmt útboði, tryggt kaup á 60.000 skömmtum af árlegu inflúensubóluefni. Á þessu ári verða keyptir 60.000 skammtar af Vaxigrip® eins og undanfarin ár og verður bóluefnið tilbúið til afhendingar um miðjan september 2014.

Heilbrigðisstofnanir og læknar geta pantað bóluefni úr ofangreindum birgðum hjá Icepharma í gegnum Parlogis sem annast dreifingu þeirra. Afhending er ókeypis frá seljanda til kaupenda hjá Parlogis ehf., (þ.m.t. í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ, Garðabæ, Álftanesi og Seltjarnarnesi) og á pósthús eða viðeigandi flutningamiðstöðvar til kaupenda utan fyrrgreinds svæðis. Allir sem panta bóluefnið hjá Parlogis þurfa að greiða fullt innkaupsverð bóluefnanna skv. samningi sóttvarnalæknis við Icepharma og ræðst endanlegt verð af lyfjaverðskrárgengi þess mánaðar sem bóluefnið er keypt.
Innkaupsverð í september 2014 er 653 kr. m. vsk.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir áhættuhópar njóti forgangs við inflúensubólusetningar:

  • Allir einstaklingar 60 ára og eldri.
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum.
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru upp hér að ofan.
  • Þungaðar konur.

Sóttvarnalæknir mælist til þess að ofangreindir forgangshópar fái bóluefnið sér að kostnaðarlausu en til að svo megi verða þarf einungis að krefja þessa einstaklinga um greiðslu fyrir umsýslukostnaði.

Sóttvarnalæknir endurgreiðir innkaupsverð bóluefnisins fyrir þessa forgangshópa, ekki umsýslukostnað, en þá þarf að senda reikning til Embættis landlæknis og á honum þarf að koma fram:

  • Númer reiknings, nafn stofnunar, fjöldi skammta og einingarverð bóluefnis.
  • Rafrænt fylgiskjal (excel) þarf að senda samhliða reikningi til sóttvarnalæknis með:
    Kennitölum hinna bólusettu, dagsetningu bólusetninga, nafni bóluefnis og hvaða áhættuhópi einstaklingarnir tilheyra.

Rétt er að árétta að bólusetning gegn árlegri inflúensu verndar gegn inflúensu A(H1N1)v (svínainflúensu).

Nánari upplýsingar gefur Júlíana Héðinsdóttir aðstoðarmaður sóttvarnalæknis
(juliana@landlaeknir.is) s. 510-1900.

Að gefnu tilefni er minnt á að einstaklinga má bólusetja jafnvel þó inflúensufaraldur sé hafinn því einungis tekur um 1-2 vikur að mynda verndandi mótefni eftir bólusetningu.


Reykjavík, 9. september 2014
Sóttvarnalæknir


Sent til heilbrigðisstofnana, heimilislækna í Reykjavík, sviðsstjóra og hjúkrunarforstjóra sjúkrahúsa, lyfjabúra sjúkrahúsa, læknastofa, stofnana fyrir aldraða og Lyfjastofnunar Íslands.


 

<< Til baka