Dreifibréf nr. 1/2014. Leghálskrabbameinsleit

Velferðarráðuneytið hefur ákveðið, að fengnum tillögum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins og umsögn landlæknis, að skipuleg leit að krabbameini í leghálsi hefjist við 23 ára aldur og millibil leitar verði þrjú ár á aldursbilinu 23 ára til 65 ára frá og með 1. janúar 2014.

Leghálskrabbamein og frumubreytingar eru af völdum Human papilloma virus (HPV). HPV er algengasti kynsjúkdómurinn í heiminum og reikna má með að flestir smitist sem einhvern tímann hafa stundað kynlíf, hvort sem það voru samfarir eða bara snerting við kynfæri annarrar manneskju. HPV smitast líka við munnmök og mök í endaþarm. Allir geta smitast af HPV við kynlíf. Smokkur veitir ekki fullkomna vörn vegna þess að hann hylur ekki öll sýkt svæði en HPV getur fundist á öllu nærbuxnasvæðinu.

Flestar HPV-sýkingar eru einkennalausar, hættulausar og ganga til baka. Í sumum tilfellum getur veirusýkingin valdið alvarlegum frumubreytingum sem geta þróast í leghálskrabbamein, venjulega á löngum tíma (nokkrum árum eða áratugum). Alvarlegar frumubreytingar og leghálskrabbamein geta fundist við reglulega leghálskrabbameinsleit.

Hér á landi hefur skipulögð leit að leghálskrabbameini dregið úr nýgengi um 70% og dánartíðni um 90% frá því leit hófst árið 1964. Árangur krabbameinsleitar byggir m.a. á góðri mætingu kvenna, skilvirku eftirliti með innköllun til hópleitar, auk eftirlits með þeim einstaklingum er greinast með afbrigðileika. Hér á landi hefur Leitarstöðin umsjón með þessum þáttum leghálskrabbameinsleitarinnar.

Það eru eindregin tilmæli landlæknis, sem faglegs eftirlitsaðila leitarstarfsins, að læknar kynni sér starfsreglur Leitarstöðvarinnar fyrir skipulega leghálskrabbameinsleit en þær má finna á vef Krabbameinsfélagsins (www.krabb.is).

Reykjavík 8, janúar 2014
Landlæknir

 

Sent Landspítala, Sjúkrahúsinu Akureyri,Heilbrigðisstofnunum, Hg. Akureyri, Hg. Dalvík, Hg. Salahverfi, Hg. Lágmúla og Krabbameinsfélagi Íslands. Afrit sent velferðarráðuneytinu.

<< Til baka