Dreifibréf nr. 5/2013. Aðgangur lækna að lyfjagagnagrunni og gagnasöfnun frá apótekum

Allt frá því að Alþingi samþykkti vorið 2012 að læknum yrði veittur aðgangur að lyfjagagnagrunni Embættis landlæknis (EL) hefur verið unnið markvisst að því að gera það mögulegt. Nýr lyfjagagnagrunnur hefur verið þróaður frá grunni sem í safnast gögn í rauntíma og ofan á hann vefsíða þar sem læknar geta með rafrænum skilríkjum fengið aðgang að lyfjasögu skjólstæðinga sinna. Á vefsíðunni sem nú er í prufunotkun allmargra lækna geta þeir séð stöðu á óútleystum rafrænum lyfseðlum, bæði fjölnota og öðrum. Læknar geta ógilt seðla sem ekki samræmast núverandi lyfjagjöf sjúklingsins. Einnig á að vera hægt að sjá allar afgreiðslur lyfseðla fyrir viðkomandi sjúkling þrjú ár aftur í tímann. Aðgangur fyrir almenning er einnig í undirbúningi á grundvelli sömu lagabreytingar.

Í nýja lyfjagagnagrunninn safnast nú í rauntíma afrit allra rafrænna lyfseðla. Unnið er að því að leggja lokahönd á gagnasöfnunina með því að fá afrit af afgreiðslum allra lyfseðla frá apótekum óháð því hvort þeir séu á pappír eða símsendir. Um heimild embættisins til slíkrar gagnasöfnunar er fjallað í Lyfjalögum, VIII. kafla 24. gr., en þar segir: „Lyfsalar skulu tölvuskrá allar upplýsingar af lyfseðlum á formi sem samþykkt er af landlækni og Persónuvernd, sbr. lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Landlæknir getur krafist þessara upplýsinga allt að einu ári aftur í tímann."

Þróuð hefur verið samskiptaleið í gegnum Heklu þar sem lyfjaafgreiðslukerfi geta skilað upplýsingum um lyfjaafgreiðslur til EL á öruggan hátt. Samskiptin hafa nú þegar verið forrituð inn í lyfjaafgreiðslukerfið Medicor og hafa verið prófuð í nokkrum apótekum án vandræða. Það er því ósk landlæknis að þau apótek sem nota það kerfi heimili TM-Software, þjónustuaðila Medicor, að gangsetja gagnasöfnunina hjá sér. Einnig óskar landlæknir eftir samstarfi um þróun samskiptanna við þau apótek sem nota önnur lyfjaafgreiðslukerfi.

Það er von landlæknis að ofangreindur aðgangur komi til með að auka skilvirkni í notkun lyfseðlagáttar og minnka vinnu apóteka við leiðréttingar og upplýsingagjöf.

Í vinnslu og bígerð eru einnig ýmsar endurbætur á lyfseðlagáttinni og vonast landlæknir eftir góðu samstarfi við apótek um þróun og innleiðingu þeirra öllum til hagsbóta.

Nánari upplýsingar gefur Ingi Steinar Ingason (ingist@landlaeknir.is) s. 510-1900.

Reykjavík 13. nóvember 2013
Landlæknir


Sent öllum apótekum í landinu ásamt afriti til velferðarráðuneytisins og Lyfjastofnunar.

Síðast uppfært 29.04.2014

<< Til baka