Dreifibréf nr. 2/2013. Tímabundið lækningaleyfi

Mikilvægt er að vel sé staðið að tímabundinni ráðningu læknanema og læknakandidata sem hafa lokið læknisprófi en eru ekki komnir með almennt lækningaleyfi. Nauðsynlegt er að sækja um leyfi fyrir þessa einstaklinga tímanlega svo tryggt sé að viðkomandi sé kominn með leyfi þegar hann hefur störf.

Nýtt umsóknareyðublað um tímabundið leyfi má nálgast á http://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/starfsleyfi/heilbrigdisstett/item13346/Laeknar. Þar er óskað eftir upplýsingum um það hvaða læknir muni starfa með viðkomandi umsækjanda. Ábyrgur fagaðili stofnunarinnar á að skrifa undir umsóknina og staðfesta að umsækjandi hafi lokið tilskyldu námi og að hann hafi verið ráðinn til stofnunarinnar í þann tíma sem sótt er um.

Embætti landlæknis vekur athygli á að samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012, 11. gr. má landlæknir, ef nauðsyn krefur, veita þeim sem lokið hafa fjórða árs námi í læknisfræði við læknadeild Háskóla Íslands eða sambærilegu námi erlendis tímabundið starfsleyfi til að sinna tilgreindum læknisstörfum. Í slíkum tilvikum skal læknanemi starfa með lækni með ótakmarkað lækningaleyfi. Þetta ákvæði er sambærilegt og var í læknalögum nr. 53/1988. Ef læknanemi er ráðinn eftir fjögurra ára nám að er óskað eftir skýringum ábyrgs fagaðila á því.

Embætti landlæknis hefur útbúið nýtt eyðublað fyrir umsókn um læknanúmer sem er aðgengilegt á vef embættisins, sjá sömu slóð og hér að ofan.

Landlæknir leggur áheslu á að það er á ábyrgð stofnana að tryggja að starfsmaður sem heyrir undir löggilta heilbrigðisstétt hafi tilskilin réttindi til starfa á viðkomandi stofnun og viðkomandi starfsmanns að framvísa gögnum sem staðfesta það. Sama á við um tímabundin lækningaleyfi.

 

Reykjavík, 18. júní 2013

Landlæknir

Sent til: heilbrigðisstofnana

<< Til baka