Dreifibréf nr. 4/2013. Leiðbeiningar Embættis landlæknis um heilsuvernd grunnskólabarna

Embætti landlæknis hefur gefið út nýjar leiðbeiningar um heilsuvernd grunnskólabarna á landsvísu sem taka gildi frá haustinu 2013.

Landlæknir skipaði árið 2011 ráðgjafahóp til að endurskoða innihald og skipulag heilsuverndar grunnskólabarna í samstarfi við Þróunarstofu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þeirri vinnu er nú lokið með gerð Leiðbeininga um heilsuvernd grunnskólabarna sem hafa verið birtar á vef embættisins og eru því tilbúnar til notkunar á landsvísu.

Mikilvæg nýjung er að leiðbeiningarnar eru settar fram sem 11 markmið og fyrir hvert markmið eru ýmist sett fram árangursviðmið og verkþættir eða eingöngu skilgreindir verkþættir. Skipulagi heyrnarmælinga í grunnskólum er breytt á þann hátt að ekki á að heyrnarmæla öll börn með skipulögðum hætti eins og tíðkast hefur, óháð heilsu þeirra og þroska. Aftur á móti er í leiðbeiningum embættisins lagt til að vísa í heyrnarmælingu þeim börnum sem eru með frávik í málþroska, það er tal- eða málörðugleika og lestrarerfiðleika. Auk þess er mælt með að heyrnarmæla börn ef foreldrar og/eða kennarar hafa grunsemdir um skerta heyrn. Þróunarstofa Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mun fylgja eftir leiðbeiningunum í samstarfi við Embætti landlæknis.

Eftirtaldir fagaðilar voru í ráðgjafahópi landlæknis: Anna Björg Aradóttir sviðstjóri, Embætti landlæknis, Björk Filippusdóttir hjúkrunarfræðingur, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Hannes Hrafnkelsson læknir, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Íris Dröfn Björnsdóttir hjúkrunarfræðingur, Heilbrigðistofnun Suðurnesja, Jórlaug Heimisdóttir sérfræðingur, Embætti landlæknis, Linda Kristjánsdóttir læknir, Heilbrigðisstofnun Vesturlands Borgarnesi, Margrét Héðinsdóttir skólahjúkrunarfræðingur, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir sviðstjóri, Þróunarstofu HH og Sveinbjörn Kristjánsson sérfræðingur, Embætti landlæknis.

Leiðbeiningar má nálgast á vef Embætti landlæknis á slóðinni http://www.landlaeknir.is/heilsuvernd-grunnskolabarna.


Reykjavík. 30. september 2013
Landlæknir

 

Sent til: forstjóra, yfirhjúkrunarfræðinga/framkvæmdastjóra hjúkrunar, yfirlækna/framkvæmdastjóra lækninga á heilbrigðisstofnunum/heilsugæslustöðvum og Þróunarsviðs Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.


<< Til baka