Dreifibréf nr. 1/2013. Eflum gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu – Leiðbeiningar.

Landlæknir vill vekja athygli heilbrigðisstofnana og heilbrigðisstarfsmanna á vefritinu „Eflum gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu“ sem embættið gaf nýlega út. Þar er fjallað um leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstofnanir, sem fagráð embættisins um sjúklingaöryggi hefur unnið að.

Leiðbeiningarnar ná til helstu þátta, sem tengjast gæðum og öryggi heilbrigðisþjónustu, svo sem mönnunar, skipulags, starfsumhverfis, atvika, gæðavísa og ábyrgðar sjúklinga á eigin heilsu. Fagráðið hefur lagt kapp á að gera leiðbeiningarnar eins hagnýtar og kostur er.

Mælst er til þess, að stofnanir í heilbrigðisþjónustu noti leiðbeiningarnar í starfi sínu. Í þeim kemur fram það sem hver heilbrigðisstofnun þarf að gera til að efla gæði og öryggi og einnig þær spurningar sem hún þarf að spyrja sig í því samhengi.

Leitað hefur verið fanga víða við vinnslu leiðbeininganna og þær geta meðal annars nýst við stefnumótun, áætlunargerð og innleiðingu umbóta á öllum þeim sviðum sem þær ná til.

Góð og örugg heilbrigðisþjónusta er sameiginlegt hagsmunamál allra sem standa að skipulagningu, veitingu og eftirliti á heilbrigðisþjónustu og ekki síst þeirra sem nota hana. Landlæknir væntir þess að notkun leiðbeininganna styðji við það starf og verði til þess að auka gæði og öryggi íslenskrar heilbrigðisþjónustu.

 

Reykjavík, 8. janúar 2013

Landlæknir

 

<< Til baka