Dreifibréf nr. 4/2012. Gátlisti varðandi öryggi á skurðstofum

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út gátlista varðandi öryggi á skurðstofum. Gátlistinn hefur verið prófaður og í ljós kom að þar sem hann var notaður lækkaði dánartíðni þeirra sem fóru í skurðaðgerð og einnig tíðni fylgikvilla eftir aðgerðir. WHO hefur því mælst til þess að gátlistinn sé notaður við allar skurðaðgerðir. Jafnframt er talið árangursríkt að notaður sé viðeigandi gátlisti við fleiri stærri inngrip, svo sem speglun og krabbameinslyfjameðferð. Embætti landlæknis er kunnugt um að ýmsar stofnanir hér á landi hafa nýtt sér gátlista WHO.

Embættið hefur látið þýða og staðfæra gátlistann Öryggi í skurðaðgerðum frá WHO (2. útgáfa 2009). Í ljósi ofangreinds mælist landlæknir til þess að gátlistinn sé notaður við allar skurðaðgerðir hér á landi. Stofnanir/starfsstofur geta aðlagað gátlistann að starfsemi sinni eftir því sem þörf krefur. Einnig er mælst til þess að hver stofnun merki sér sinn lista. Embætti landlæknis væntir þess að almenn notkun gátlistans hér á landi verði til þess að efla gæði og öryggi skurðaðgerða.

Á vef embættisins er að finna ítarlegri upplýsingar á vefsíðunni Öryggi á skurðstofum. Gátlisti WHO, sem stofnanir og starfsstofur eru hvattar til að kynna sér.

Landlæknir

<< Til baka