Dreifibréf nr. 3/2012. Tilmæli landlæknis til lækna vegna notkunar á metýlfenidati

Eins og komið hefur fram er lyfið metýlfenidat notað umtalsvert meira á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Lyfið hefur reyndar verið svo mikið notað, að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) sá ástæðu til að vekja athygli íslenskra heilbrigðisyfirvalda á þessu og óska skýringa.

Landlæknir hefur meðal annars þá skyldu að líta eftir lyfjaávísunum lækna og skal hann hafa sérstakt eftirlit með ávísunum lækna og tannlækna á ávana- og fíknilyf. Áhersla á þann þátt í starfsemi Embættis landlæknis hefur verið verulega aukin en þrátt fyrir það heldur metýlfenidatnotkun enn áfram að aukast þótt dregið hafi nokkuð úr vextinum. Í viðleitni til að stemma stigu við þessari miklu notkun vill landlæknir beina þeim tilmælum til lækna að þeir ávísi ekki þessu lyfi nema til þeirra sjúklinga sem hafa gild lyfjaskírteini fyrir greiðsluþátttöku í metýlfenidati með nafni ávísandi læknis á. Einnig vill landlæknir beina þeim tilmælum til lækna að þeir ávísi ekki metýlfenidati til sjúklinga með fíknisögu því að í slíkum tilvikum á atómoxetín eða önnur meðferð oftast betur við.

Mikið hefur verið rætt og ritað um hámarksskammta af lyfinu og svo virðist sem nokkuð samdóma álit sé að ekki ætti að ávísa stærri skömmtum af metýlfenidati (Ritalin eða Ritalin Uno) en sem nemur 1,3 mg/kg/dag en það samsvarar um 1,5 mg/kg/dag af langvirku formi lyfsins (Concerta). Landlæknir mælist því til þess að skömmtun þessara lyfja sé að jafnaði haldið innan þessara marka.

Læknar eru beðnir að hafa vakandi auga með aukaverkunum eins og svefnleysi sem geta verið merki um ofskömmtun.

Læknar eru hvattir til að nýta sér nýja útgáfu klínískra leiðbeininga um vinnulag við greiningu og meðferð athyglisbrests með ofvirkni (ADHD) sem nálgast má á heimasíðu embættisins http://www.landlaeknir.is

Landlæknir leggur áherslu á að læknar fari að þessum tilmælum.

 

Reykjavík, 21. september 2012

Landlæknir

<< Til baka