Dreifibréf nr. 1/2012. Ný lög um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012

Alþingi hefur samþykkt nýja löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn, lög nr. 34/2012.

Embætti landlæknis vekur athygli heilbrigðisstarfsmanna á því að Alþingi hefur samþykkt nýja löggjöf um heilbrigðisstarfsmenn, lög nr. 34/2012. Lögin munu taka gildi 1. janúar 2013, en við gildistöku þeirra falla úr gildi þau sérlög sem nú gilda um einstakar heilbrigðisstéttir, svo sem læknalög, hjúkrunarlög o.s.frv. Nýju lögunum er m.a. ætlað að skýra og samræma reglur sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn, greiða fyrir samvinnu heilbrigðisstétta og því að starfssvið þeirra verði afmarkað með tilliti til hagsmuna sjúklinga.

Markmið laganna skv. 1. gr. þeirra er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra. Heilbrigðisstarfsmaður er, skv. 2. gr. laganna, einstaklingur sem starfar við heilbrigðisþjónustu og hefur hlotið leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar, en í 3. gr. laganna eru tilgreindar þær 33 heilbrigðisstéttir sem lögin taka nú til, þ.e. þær sem hlotið höfðu löggildingu þegar lögin voru samþykkt. Ráðherra getur síðar fellt fleiri heilbrigðisstéttir undir lögin með reglugerð.

Í 4. gr. nýju laganna segir að rétt til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður hér á landi hefur sá einn sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis og í 10. gr. laganna segir að þeim sem ekki hefur gilt leyfi landlæknis sé óheimilt að nota löggilt starfsheiti eða starfa sem heilbrigðisstarfsmaður. Honum er jafnframt óheimilt að veita sjúklingi meðferð sem fellur undir lögverndað starfssvið löggiltrar heilbrigðisstéttar eða gefa læknisfræðilegar eða aðrar faglegar ráðleggingar.

Ráðherra skal skv. 5. gr. laganna, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi, setja reglugerðir um skilyrði sem uppfylla þarf til að hljóta starfsleyfi í hverri stétt, m.a. um nám, starfsþjálfun og umsagnir menntastofnunar. Þá má ákveða starfssvið viðkomandi heilbrigðisstéttar með reglugerð. Vinna við reglugerðir á grundvelli 5 gr. laganna er hafin af hálfu velferðarráðuneytisins og Embættis landlæknis, en stefnt er að því að settar verði reglugerðir um allar 33 heilbrigðisstéttirnar fyrir áramót, en þá taka lögin gildi. Vænst er góðrar samvinnu við fulltrúa heilbrigðisstétta í þeirri vinnu.

Embætti landlæknis vill að lokum vekja sérstaka athygli heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisstofnana á því að skilyrðið um að einstaklingur þurfi að hafa gilt starfsleyfi til að mega starfa sem heilbrigðisstarfsmaður er ekki nýmæli, heldur þurfa allir þeir sem ráðnir eru til starfa sem heilbrigðisstarfsmenn að hafa gilt starfsleyfi áður en þeir hefja störf.


Landlæknir

 

Til heilbrigðisstofnana/heilbrigðisstarfsmanna

<< Til baka