Dreifibréf nr. 6/2000. Berklaskoðun

Um berklaskoðun á þeim sem sækja um dvalarleyfi á Íslandi

Mælst er til þess að allir sem sækja um dvalarleyfi og farið er fram á að fari í læknisskoðun skulu berklaprófaðir, þar með talið þeir sem hafa fengið berklabóluefni í æsku.

Framkvæmd og aflestur berklaprófs

 

  • Mælt er með Tuberculin PPD RT 23 SSI, 2 T.U./0.1 ml frá Statens Serum Institut. Það prófunarefni er mest notað og best staðlað. Sprautað er 0.1ml í húð með 1 ml sprautu og fínni nál (no. 25-26 G). Það á að sjást tæplega 10 mm hvítt upphleypt svæði. Best er að gera prófið utanvert á miðjum framhandlegg (Arnadottir et al. Guidelines for conducting tuberculin skin test surveys in high prevalence countries. Tubercle Lung Dis 1996;77(Suppl):1-20). 

 

 

  • Aflestur fer fram eftir 3 daga og er þvermál þykkildis mælt í mm með reglustiku eftir þreifingu og merkingu. Túlkun prófins fer eftir aðstæðum. Aflestur sem er meiri en 15 mm á að vekja grun um berklaveiki. Aflestur milli 5-10 mm hjá óbólusettu barni á einnig að vekja grun um berkla. Aflestra milli 10-15 mm verður að meta frá frá tilfelli til tilfellis.

 

Aukaverkanir
Hjá þeim sem hafa mikið ofnæmi fyrir túberkúlíni geta myndast blöðrur og sár. Þetta grær venjulega á nokkrum dögum án aðgerða.


Áhrif örvunar
Við berklapróf getur svörun sem upphaflega var lítil örvast og valdið stærri aflestri við síðara endurtekið próf og gætir þessa fyrirbæris í öllum aldurshópum. Túberkúlín eitt sér er ekki talið valda síðkomnu ofnæmi.


Fölsk neikvæð svörun
Næmi prófsins (jákvæð svörun) minnkar eftir því sem tími líður og fólk eldist og hjá þeim sem hafa virka berklaveiki eru tæplega 10% án útkomu. Falsk neikvæðar svaranir sjást við mislinga, eitlasótt, sarklíki og illkynja æxli; einnig í 4-6 vikur eftir nýsmitun með berklabakteríu.


Fyrirbyggjandi meðferð
Við jákvæð próf þar sem sterkur grunur er um nýsmitun (1-2 ár) skal veita kost á ísoniazið meðferð (5mg/kg/dag), hámark 300mg á dag í 9 mánuði. Meðferðin veitir allt að 90% vernd gegn berklaveiki sé lyfið tekið reglulega. Til að draga úr líkum á aukaverkun er jafnframt gefið pýridoxín 20mg/dag. Greina þarf milli berklaveiki og berklasýkingar með sögu, skoðun, hrákaræktun og lungnamynd. Aldrei skal gefa eitt berklalyf ef minnsti gunur er um virka berkla.

Vakni spurningar um framkvæmd berklaprófa skal hafa samband við Lungna- og berklavarnadeild Heilsuverndastöðvar Reykjavíkur en það er sú göngudeild smitsjúkdóma sem er miðstöð sóttvarnaeftirlits með fullorðnum dvalarleyfisumsækjendum. Tilmæli þessi eru gerð í samráði við yfirlækni Lungna- og berklavarnadeildaar Heilsuverndastöðvar Reykjavíkur.


27.apríl 2000

Sóttvarnalæknir

Uppfært 25. maí 2012

 

<< Til baka