Dreifibréf nr. 6/2003. Túlkaþjónusta heyrnarlausra

Túlkaþjónusta við heyrnarlausa

Rétturinn til upplýsinga er hluti af grundvallar réttindum sjúklinga. Samkvæmt 5. gr. laga um Réttindi sjúklinga nr. 74/1997 skal sjúklingi sem notar táknmál tryggð túlkun á upplýsingum. Heilbrigðisstarfsmönnum ber að sjá til þess að sjúklingar sem nota táknmál skilji þær upplýsingar sem veittar eru.

Landlæknisembættinu hafa borist athugasemdir frá Félagi heyrnarlausra, þar sem bent hefur verið á að ítrekað hafi þessi réttur heyrnarlausra sjúklinga ekki verið tryggður. Því vill Landlæknisembættið hvetja heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn til að fylgja þessum grundvallarréttindum heyrnarlausra sjúklinga og tryggja að þeim sé tryggð túlkun.

Heilbrigðisþjónustan getur ekki tryggt sjúklingum túlkun á öllum samskiptum sem fara fram innan heilbrigðisþjónustunnar. Þau viðmið sem Landlæknisembættið telur að eigi að viðhafa að lágmarki eru að tryggja heyrnarlausum sjúklingum túlkun við innskrift og útskrift af stofnun, við allar heimsóknir til heilbrigðisstarfsmanns, hvort sem er á heilbrigðisstofnun eða hjá sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum, við flutning milli stofnana, við allar upplýsingar og ráðgjöf sem gefa þarf í sambandi við upphaf eða lok meðferðar eða breytingar á meðferð. Einnig beinir landlæknir þeim tilmælum til heilbrigðisstarfsmanna að hafa í huga að ekki er tryggt að heyrnarlaus sjúklingur hafi getu til að hafa forgöngu um og óska eftir túlkun á táknmáli, svo sem ef sjúklingur sýnir sjúkdómsins vegna lítið frumkvæði eða ef um aldraðan einstakling er að ræða. Í slíkum tilvikum þurfa heilbrigðisstarfsmenn sjálfir að hafa forgöngu um túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa sjúklinga.


14. nóvember 2003
Landlæknir

Uppfært 25. maí 2012

 

<< Til baka