Dreifibréf nr. 9/2006. Fósturskimun á meðgöngu

Í um það bil 30 ár hefur verið boðið upp á leit að Down's heilkenni og öðrum litningafrávikum hjá verðandi mæðrum eldri en 35 ára með legvatnsástungu þar sem skoðaðir eru litningar í frumum í sýninu. Legvatnsástunga er að jafnaði gerð við 15 vikna meðgöngu. Líkur á fósturláti í kjölfar legvatnsástungu eru um 0,5-1%. Með ómskoðun og mælingu lífefnavísa, auk aldurs móður, er hægt að skilgreina og meta líkur á litningafrávikum fósturs á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Boðið hefur verið upp á skimun af þessu tagi hér á landi á undanförnum árum. Ef auknar líkur eru á litningafrávikum er boðin litningarannsókn á fóstri með fylgjusýnistöku eða legvatnsástungu. Með tilkomu skimunar af þessu tagi hefur legvatnsástungum fækkað.

Mikil umræða hefur verið um þessi mál hérlendis. Innan siðfræði, fötlunarfræði og guðfræði hafa komið fram hugmyndir um að vaxandi notkun á skimun fyrir frávikum hjá fóstri setji verðandi foreldra í afar erfiða aðstöðu, auk þess sem slíkar rannsóknir geta leitt til mismununar í samfélaginu gagnvart einstaklingum sem eru fatlaðir. Mikilvægt er að verðandi foreldrar hafi val um skimun og fái óvilhalla ráðgjöf og upplýsingar, meðal annars um það hvað jákvætt skimpróf þýðir og möguleika á falskt-jákvæðum og falskt-neikvæðum niðurstöðum. Einnig hvaða valkostir standa til boða ef líkur á litningafrávikum eru auknar og þá ákvörðun sem fólk stendur frammi fyrir, greinist litningafrávik hjá fóstrinu.

Frekari upplýsingar munu verða aðgengilegar fyrir fagfólk og almenning á vef Landlæknisembættisins innan tíðar.

Í ljósi þessa og með hliðsjón af lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997, mælir Landlæknisembættið með því að:

  1. Öllum barnshafandi konum/verðandi foreldrum verði boðnar upplýsingar um skimun fyrir Down's heilkenni og öðrum þrístæðum. 
  2. Ákvörðun barnshafandi kvenna/verðandi foreldra um skimun byggist á upplýsingum úr samtölum við heilbrigðisstarfsmann og úr fræðslugögnum, þar sem áhersla er lögð á eðli skimunar, forspárgildi hennar og þá ákvörðun sem taka verður, reynist skimpróf jákvætt. 
  3. Barnshafandi kona/verðandi foreldrar geti valið skimun sem byggir á samþættu líkindamati eftir ómskoðun og blóðrannsókn á fyrsta þriðjungi meðgöngu. 
  4. Í undantekningartilfellum er hægt að meta líkur á litningafrávikum með annaðhvort ómskoðun eða blóðrannsókn, en hafa ber í huga að líkindamat slíkra rannsókna er mun lakara en samþætt líkindamat. 
  5. Barnshafandi kona/verðandi foreldrar geti einnig valið skimun við 19-20 vikna meðgöngu þar sem meðal annars er skimað fyrir sköpulagsgöllum fósturs. 
  6. Nánar verði kveðið á um tilhögun og framkvæmd skimana í leiðbeiningum um mæðravernd.

 

Seltjarnarnesi, 3. október 2006
Landlæknir

 

Sent til lækna og ljósmæðra á heilbrigðisstofnunum, heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum, kvensjúkdómalækna, sjálfstætt starfandi ljósmæðra og Miðstöð mæðraverndar

 

Uppfært 24. maí 2012

 

<< Til baka