Dreifibréf nr. 16/2008. Ung- og smábarnavernd

Eins og fram hefur komið í bréfum Landlæknisembættisins frá 25. júní 2007, 14. janúar 2008 og 25. september 2008, hefur embættið unnið að endurskoðun á handbók í ung- og smábarnavernd sem var gefin út árið 1996.

Drög að endurskoðaðri handbók ásamt verkáætlun um hvernig staðið verður að breytingunum voru sett á vefsetur Landlæknisembættisins 6. október sl. til umsagnar og kynningarfundur haldinn 10. nóvember. Borist hafa margar góðar ábendingar sem tekið hefur verið tillit til.

Eins og fram hefur komið hefur verið ákveðið að taka upp breytingar á skoðunum í ung- og smábarnavernd. Í stað skoðana við 3½ og 5 ára aldur verða þær við 2½ og 4 ára aldur. Til stóð að þessar breytingar tækju gildi í byrjun árs 2009. Nú er hins vegar verið að gera breytingar á einingu ung- og smábarnaverndar í SÖGU kerfinu undir umsjón heilbrigðisráðuneytisins. Þær fela í sér talsverðar breytingar á viðmótinu og taka því nokkurn tíma í vinnslu. Gert er ráð fyrir að þær verði tilbúnar í byrjun mars 2009.

Ákveðið hefur verið að nota ný tæki til að meta þroska barna, sem eru PEDS Mat foreldra á þroska barna og BRIGANCE þroskaskimun. Námsmatstofnun hefur unnið að þýðingu, staðfæringu og forprófun á tækjunum í samstarfi við Landlæknisembættið og Miðstöð heilsuverndar barna. Mælitækin ásamt leiðbeiningum verða gefin út í byrjun árs 2009 og verður send út tilkynning til heilsugæslustöðva þegar að því kemur. Búið er að þjálfa hjúkrunarfræðinga á landsbyggðinni sem verða leiðbeinendur í sínu heilbrigðisumdæmi. Einnig hafa verið haldnar vinnusmiðjur fyrir hjúkrunarfræðinga á höfuðborgarsvæðinu.

Landlæknisembættið leggur til að heilsugæslustöðvar fari að undirbúa þessar breytingar og að þær verði komnar í gagnið í mars 2009. Meðfylgjandi eru tillögur að framkvæmd breytinganna.

Seltjarnarnesi, 9. desember 2008

Landlæknir

Sent til: Yfirhjúkrunarfræðinga/framkvæmdastjóra hjúkrunar og yfirlækna/framkvæmdastjóra lækninga á heilbrigðisstofnunum/ heilsugæslustöðvum, Miðstöðvar heilsuverndar barna og
Miðstöðvar mæðraverndar.

Afrit: Heilbrigðisráðuneyti, Námsmatsstofnun.

 

Tillögur um framkvæmd breytinganna

Ákveðið hefur verið að taka upp nýtt fyrirkomulag skoðana barna í ung- og smábarnavernd, þ.e. skoðanir verði við 2½ og 4 ára aldur í stað 3½ og 5 ára. Gert er ráð fyrir að breytt fyrirkomulag verði komið í gagnið í mars 2009.

Breytingin verður framkvæmd á eftirfarandi hátt:

 • Börn sem eru 2½ til 3ja ára fara í 2½ árs skoðun hjá hjúkrunarfræðingi og lækni.
 •  
  • PEDS Mat foreldra á þroska barna og BRIGANCE þroskaskimun.
 • Börn sem eru 3ja til 5 ára fara í 4 ára skoðun hjá hjúkrunarfræðingi (og lækni ef þörf er á).
 •  
  • PEDS Mat foreldra á þroska barna, BRIGANCE þroskaskimun, sjónpróf og bólusetning.
 •  
  • Mikilvægt er að börn séu skoðuð sem næst 4 ára afmælisdeginum þar sem sjónprófið má ekki dragast.
 •  
  • Börn sem eru orðin 3ja ára og fóru síðast í 18 mánaða skoðun fara því næst í 4 ára skoðun. Ef foreldrar eru áhyggjufullir og vilja síður láta svo langan tíma líða milli skoðana, er rétt að bjóða þeim upp á auka viðtal hjá hjúkrunarfræðingi sem getur notað PEDS Mat foreldra á þroska barna.
 • Börn sem hafa farið í 3½ árs skoðun fara næst í skoðun til hjúkrunarfræðings u.þ.b. ári seinna (og læknis ef þörf er á).
 •  
  • PEDS Mat foreldra á þroska barna.
 •  
  • Bólusetning.
 •  
  • Ekkert sjónpróf ef þau voru sjónprófuð í 3 ½ árs skoðun og sjónprófið var eðlilegt.
 •  
  • Ef áhyggjur hjá foreldrum eða fagfólki, má nota BRIGANCE þroskaskimun upp að 5 ára aldri.

Vefsett 17. desember 2008

 

<< Til baka