Dreifibréf nr. 12/2008. Tímabundin lækningaleyfi

Í 4. gr. læknalaga nr. 53/1988 segir: „Ef nauðsyn krefur má landlæknir fela læknakandídötum eða læknanemum sem lokið hafa 4. árs námi að gegna tilgreindum læknisstörfum um stundarsakir og hefur viðkomandi þá lækningaleyfi á meðan hann gegnir þeim störfum. Í slíkum tilvikum skal læknanemi starfa með lækni. Víkja má frá ákvæðum 2. málsgr. telji landlæknir sérstakar ástæður mæla með því."

Þessu ákvæði hefur nærfellt eingöngu verið beitt þegar læknanemar starfa í heilsugæslu, einkum utan höfuðborgarsvæðisins. Nærfellt aldrei hefur verið eftir tímabundnu lækningaleyfi leitað til handa læknanemum við störf á sjúkrahúsum. Ákvæði þetta er að sjálfsögðu barn síns tíma, meðan einmenningshéruð voru algeng og einyrkjar í læknastétt að störfum. Þetta hefur mjög breyst og mun breytast áfram, ekki síst í ljósi sameiningar heilbrigðisstofnana í samræmi við ákvæði um heilbrigðisumdæmi í 2. kafla laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007.

Ákvæði læknalaga er skýrt að því leyti að læknanemar skulu starfa með lækni og einungis sérstakar ástæður þurfi að vera til sé unnt að veita undanþágu frá því. Gera má ráð fyrir því að þessar sérstöku ástæður séu nú sjaldgæfar. Jafnframt skiptir máli að halda því til haga að læknanemar hafa ekki lokið námi eða faglegri þjálfun og af þeim sökum geta þeir ekki gengið fullkomlega í fótspor læknis, enda væri lækningaleyfið lítils virði ef svo væri. Læknar geta hins vegar við störf sín notið aðstoðar annarra í samræmi við 7. gr. læknalaga nr. 53/1988. Lögin gera ráð fyrir að þar sé um heilbrigðisstarfsfólk að ræða sem starfi á ábyrgð læknis. Öllum læknanemum er mjög hollt að starfa með lækni í héraði eða á sjúkrahúsum, en skýrt þarf að vera að læknaneminn starfi þar ætíð á ábyrgð læknis.

Í ljósi þessa telur Landlæknisembættið því ekki lengur þörf á útgáfu sérstakra tímabundinna lækningaleyfa fyrir læknanema í tímabundnum störfum. Verði þar samræmi á verklagi milli starfa læknanema innan og utan sjúkrahúsa.

Hins vegar geta komið upp „sérstakar ástæður" sem kalli á það að læknanemi starfi tímabundið án daglegs samstarfs við lækni. Lögin kveða þá á um að landlæknir meti slíkt í hverju tilviki fyrir sig. Tilefni þessa bréfs er því að vekja athygli á þessu og óska jafnframt eftir skýrum upplýsingum um nauðsyn þess að læknanemi í tilteknum tilvikum þurfi að starfa einn, þ.e. án reglulegs samstarfs við lækni.

Seltjarnarnesi 22. október 2008

Landlæknir

Sent yfirlæknum/lækningaforstjórum heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa.

Uppfært 28. nóvember 2008

<< Til baka