Dreifibréf nr. 10/2008. Bið eftir meðferð og upplýsingaskylda

Biðlistar í heilbrigðisþjónustu hafa ávallt verið mikið til umfjöllunar og sífellt er verið að leita leiða til að þeir valdi ekki sjúklingum skaða eða skerði lífsgæði þeirra. Á hverjum tíma er nauðsynlegt að forgangsraða verkefnum í heilbrigðisþjónustunni með hliðsjón af heilsufari og tiltækum úrræðum. Stundum geta orðið til biðlistar eftir ákveðinni þjónustu en bráðaþjónusta gengur ætíð fyrir. Heilbrigðisyfirvöld hafa í samstarfi við þá sem veita heilbrigðisþjónustu unnið að því á undanförum árum að stytta biðlista og orðið vel ágengt. Alltaf er það þó svo að sums staðar eru biðlistar eftir þjónustu sem eiga sér mismunandi orsakir.

Til að sjúklingar fái þjónustu eins fljótt og unnt er og á réttu þjónustustigi er nauðsynlegt að upplýsingar um biðtíma eftir þjónustu séu sem aðgengilegastar. Að þessu þurfa heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisyfirvöld að huga. Landlæknisembættið er að efla upplýsingar á vefsetri sínu til að koma til móts við bæði þarfir sjúklinga og fagfólks, sjá Bið eftir heilbrigðisþjónustu.

Landlæknisembættið vill með þessu dreifibréfi vekja athygli heilbrigðisstarfsmanna og stofnana á ákvæðum í lögum um réttindi sjúklinga nr. 74/1997. Þar er kveðið á um í 18. gr. að læknum beri að gefa sjúklingum sínum skýringu á því hvers vegna bið er eftir meðferð. Þá er þeim einnig skylt að veita upplýsingar um áætlaðan biðtíma og þeim möguleikum sem fyrir hendi eru á að fá meðferðina fyrr annars staðar.

Seltjarnarnesi, 25. september 2008
Landlæknir


Sent heilbrigðistofnunum, heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og læknastofum sjálfstætt starfandi lækna

Uppfært 28. nóvember 2008

 

<< Til baka