Dreifibréf nr. 13/2009. Nýting og þekking á starfskröftum sjúkraliða

Gæði í heilbrigðisþjónustu byggja á vel menntuðu fagfólki og að þekking þess sé nýtt á markvissan hátt. Skýrsla um þróun mannafla í heilbrigðisþjónustunni sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir heilbrigðisráðuneytið (2006) bendir til að stór hluti sjúkraliðastéttarinnar fari á eftirlaun á næstu 10 árum.

Landlæknisembættið telur mikilvægt að leita leiða til að draga úr áhrifum þessa vanda á gæði og öryggi í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Því er mikilvægt að efla og styrkja starfsþróun sjúkraliða.

Í ljósi þróunar heilbrigðisþjónustu þykir sýnt að aukin þörf verður fyrir sjúkraliða til að sinna langveikum, geðsjúkum og öldruðum og munu þeir gegna stærra hlutverki og verða falin aukin verkefni. Ennfremur er ljóst að sjúkraliðar munu áfram hafa hlutverki að gegna í bráðahjúkrun. Brýnt er að menntun sjúkraliða og sjúkraliðastarfið þróist eðlilega í takt við þarfir íslensks samfélags og heilbrigðiskerfis.

Landlæknisembættið ákvað í apríl 2007 að setja á laggirnar vinnuhóp með það hlutverk að skoða hvernig menntun sjúkraliða nýttist innan heilbrigðisþjónustunnar. Hópnum var ætlað að setja fram tillögur um hvort og þá með hvaða hætti hjúkrunarstjórnendur gætu hugað að breytingum í áherslum í starfi sjúkraliða svo að starfskraftar þeirra og menntun nýttust sem best og möguleikar til starfsþróunar væru tryggðir. Í vinnuhópnum voru fulltrúar frá Landlæknisembættinu, Sjúkraliðafélaginu, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Vinnuhópurinn skilaði tillögum til landlæknis í júní 2009. Landlæknir vill hér með koma þessum tillögum á framfæri við stjórnendur í hjúkrun á heilbrigðisstofnunum og vonar að þær geti komið að gagni við að vinna að því að þekking sjúkraliða sé nýtt sem best með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.

Tillögur vinnuhóps Landlæknisembættisins

 

 

  • Starfslýsingar sjúkraliða endurspegli menntun þeirra og sérhæfingu á tilteknum sviðum. 
  • Sjúkraliðar taki virkari þátt í vinnu hjúkrunarteymis hvað varðar upplýsingasöfnun og mat á sjúklingum vegna hjúkrunarmeðferðar og komi markvisst að skráningu hjúkrunarupplýsinga. 
  • Sjúkraliðar taki virkari þátt í einstaklingsmiðaðri hjúkrun þannig að sjúklingur hafi bæði tilgreindan hjúkrunarfræðing og sjúkraliða. 
  • Sjúkraliðar komi að þverfaglegri teymisvinnu. 
  • Ábyrgðarsvið sjúkraliða á einstökum stofnunum og einingum verði samhæft og stjórnendur stofnana og deilda gæti samræmis í því hvaða verkefni og ábyrgð sjúkraliðum eru falin. 
  • Sjúkraliðar hafi með höndum verkstjórn og útdeili verkum til annarra sjúkraliða og annars starfsfólks eftir ákvörðun hjúkrunarstjórnenda. 
  • Stofnanir setji sér stefnu í starfsþróunarmálum og skjalfesti formlega áætlanir um sí- og endurmenntun sjúkraliða í samvinnu við þá. 
  • Hjúkrunarstjórnendur vinni markvisst að starfsþróun sjúkraliða í takt við áherslur stofnana og þarfir viðkomandi sjúklingahópa.

 

 


Seltjarnarnesi, 16. desember 2009
Landlæknir


Sent stofnunum í heilbrigðisþjónustu (heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum, heilsugæslustöðvum, hjúkrunarheimilum, HNLFÍ, Reykjalunndi, Sjúkraliðafélagi Íslands og Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga.

 

<< Til baka